144. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2014.

rekstrarhalli Landspítalans.

[15:23]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Til að svara hv. þingmanni beint þá vona ég svo sannarlega að til standi að koma þessu í betra horf í fjárlögum næsta árs. Í það minnsta mun ég leggja mig fram um að við fáum aukið svigrúm fyrir Landspítalann í fjárlögum ársins 2015, klárlega. Þeirri vinnu er ekki lokið og það ber að undirstrika.

Ég vil þó engu að síður árétta, þegar við ræðum um vanda Landspítalans, að Landspítali – háskólasjúkrahús er ekki eina heilbrigðisstofnunin í landinu. Við rekum heilbrigðisstofnanir um allt land og ég gæti nefnt heilbrigðisstofnanir sem eru hlutfallslega í verri stöðu með afkomu en Landspítali – háskólasjúkrahús. En það fer ekkert fyrir þeirri umræðu. Ég segi við hv. þingmann hér: Í því svigrúmi sem verður skapað fyrir heilbrigðismálin í meðferð Alþingis á fjárlögum næsta árs mun ég einnig berjast fyrir því að þeim heilbrigðisstofnunum verði sinnt. (Forseti hringir.) Það mun hugsanlega takmarka það svigrúm sem hægt er að veita fyrir Landspítalann en ég bind vonir mínar við og vænti þess að við getum bætt í heilbrigðisþjónustuna í komandi fjárlögum.