144. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2014.

innflutningur á hrefnukjöti.

[15:30]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Fyrr í mánuðinum bárust fréttir af því að áætlað væri að flytja inn allt að 10 tonn af hrefnukjöti frá Noregi vegna þess að hrefnuveiðar við Íslandsstrendur hafi gengið illa það sem af er þessu ári en aðeins hefur tekist að veiða 23 dýr af 236 dýra kvóta. Samkvæmt frétt í Morgunblaðinu frá 4. nóvember kemur það einmitt fram að Gunnar Bergmann Jónsson, sem er framkvæmdastjóri IP Útgerðar og formaður Félags hrefnuveiðimanna, stendur fyrir þessum áformum.

Í mínum huga vekur þetta upp fjölmargar spurningar ef rétt er. Ég vil þess vegna beina nokkrum spurningum til hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, og jafnvel umhverfisráðherra einnig, Sigurðar Inga Jóhannssonar, og heyra hans afstöðu í þessu máli.

1. Verðum við ekki að endurskoða hvalveiðikvóta sem við höfum gefið út ef staðan er sú að við þurfum að flytja hvalkjöt inn? Erum við ekki komin á algjörar villigötur með þessa hvalveiðikvóta?

2. Er það yfir höfuð eðlilegt að við séum að flytja inn hvalkjöt?

Ég vil gjarnan heyra afstöðuna til þess og jafnvel að við ræðum þetta svolítið. Finnst okkur það? Eigum við að flytja inn hvalkjöt?

Svo ætla ég að koma hingað upp í seinni hlutanum og aðeins að ræða upprunamerkingar og fleira varðandi þetta kjöt.