144. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2014.

hækkun taxta sérgreinalækna.

[15:37]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Þann 7. júlí sl. hækkuðu gjöld fyrir sérgreinalæknishjálp, rannsóknir og myndgreiningu og gert er ráð fyrir að sú hækkun skili 70 millj. kr. til lækkunar ríkisútgjalda á árinu. Hækkunin er liður í fjármögnun nýs samnings við sérgreinalækna sem tók gildi 1. janúar. Samningur við sérgreinalækna var laus í langan tíma en engu að síður var áfram greitt í samræmi við útrunninn samning en sérgreinalæknar komust á móti upp með að hækka gjaldskrá sína og velta í raun og veru án eftirlits þeim hækkunum beint á sjúklingana. Með gerð nýs samnings var það ferli stöðvað og þessu komið aftur í ákveðna reglu, svo notað sé orðalag hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra í umræðu um málið í síðustu viku. Ríkið er því að taka á sig með tillögum í fjáraukalögum það sem sjúklingar greiddu áður og kostnaðarþátttaka sjúklinga lækkar í ár með samningunum við sérgreinalækna eins og eðlilegt mætti teljast.

Í fjáraukalagafrumvarpinu kemur hins vegar skýrt fram að við gerð samningsins var gengið út frá því að sjúklingar greiddu kostnaðinn en samningurinn leiddi ekki til aukinna útgjalda fyrir ríkissjóð. Sjúklingar áttu að greiða hærri komugjöld samkvæmt reglugerð en reglugerðinni hafði hins vegar ekki verið breytt líkt og gert var ráð fyrir. Ég vil taka fram að ég er ánægð með það að sjúklingar hafi fengið að njóta þess að samningur hafi náðst við sérgreinalækna og tel það raunar sjálfsagt.

En ég vil samt spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra hvers vegna reglugerðin hafi ekki verið samin og breytt líkt og gert var ráð fyrir. Ég vil einnig spyrja hæstv. ráðherra hvaða áhrif það hefði haft á verðbólguna ef gjaldskránni hefði verið breytt og rúmur milljarður hefði lent á sjúklingum á árinu en ekki á ríkissjóði eins og reyndar var gert ráð fyrir þegar samningurinn var gerður.