144. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2014.

hækkun taxta sérgreinalækna.

[15:39]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Hér er komið inn á mál — og ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja athygli á því — sem búið er að reyna að koma á framfæri hvernig sé vaxið í allnokkurn tíma. Gríðarlega flókið regluverk gildir um endurgreiðslugjaldskrá Sjúkratrygginga Íslands um þátttöku í kostnaði hjá sjúklingum hjá sérgreinalæknum. Í samningsleysinu frá 2011 til ársloka 2013, af því að ekki var samið af ríkinu við sérgreinalækna, þá veltu þeir kostnaði, eins og kom fram í máli hv. þingmanns, yfir á sjúklinga. Kostnaðarhlutdeild sjúklinga fór í samningsleysinu úr því að vera 29% af kostnaði upp í 42%.

Þannig háttaði til á þessum tíma að Hagstofa Íslands mat ekki þær hækkanir á hlutdeild sjúklinga til verðlags. Ef ný gjaldskrá hefði verið gefin út í rituðu formi af ríkinu hefði Hagstofan farið að byrja að mæla. Við erum að reyna að koma þessum samskiptum í eðlilegan farveg á milli Sjúkratrygginga og Hagstofunnar og ráðuneytisins þar sem þetta er mælitækni innan gæsalappa sem getur ekki gengið.

Ég get ekki svarað því nákvæmlega hve verðlagshækkunin sem af þessu leiddi hefði orðið mikil en grundvallaratriðið í þessu var að sjúklingarnir sem áttu viðskipti við sérgreinalæknana áttu að vera jafnsettir hvað varðar kostnaðarhlutdeild. Það gekk ekki eftir, meðal annars út af samkomulagi aðila vinnumarkaðarins og ríkisstjórnarinnar um verðlagshækkanir. Ég vil leyfa mér að fullyrða að það hafi verið vegna þess að ekki var fullur skilningur á því hvað þarna var á ferðinni og get (Forseti hringir.) að mínu leyti tekið á mig nokkra ábyrgð á því að sá skilningur var ekki til staðar hjá aðilum beggja vegna borðsins.