144. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2014.

hækkun taxta sérgreinalækna.

[15:43]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé enginn sáttur við það að greiðsluþátttaka sjúklinga aukist ár frá ári. Eins og gerðist þegar við sömdum ekki við sérgreinalækna hér á árum áður þá jókst greiðsluþátttaka sjúklinga í þessum hluta heilbrigðisþjónustunnar úr 29% upp í 42%. Ég ímynda mér ekki að menn hafi verið sáttir við það. Veruleikinn er engu að síður þessi. En ég fullyrði að þrátt fyrir hækkanir sem hv. þingmaður nefndi hefur greiðsluþátttakan lækkað í heildina á þessu ári, en það er rétt að það stefnir í það að við þurfum að breyta gjaldskrá til að hafa upp á þeim kostnaði sem leiðir af störfum sérgreinalæknanna.

Engu að síður vil ég leggja áherslu á það að tryggingin sem sjúklingar fá sem þurfa úrræði sem þarna eru veitt í 450 þúsund komum á ári, (Forseti hringir.) tryggingin fyrir því að það sé ekki sjálfkrafa hægt að velta yfir á þá kostnaði, hún er komin með samningnum, og það er töluvert mikils virði.