144. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2014.

skuldaleiðrétting og staða ríkissjóðs.

[15:44]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegi forseti. Einhverjum kann að virðast að borið í bakkafullan lækinn að ræða aftur skuldaleiðréttingar í upphafi þessarar viku, í ljósi þess að við ræddum þær mjög mikið í síðustu viku, en mér finnst einfaldlega mjög mikilvægt að ræða ýmsar hliðar á þessu risastóra máli. Ég vil þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir að verða við beiðni minni um að koma til sérstakra umræðna og ræða sérstaklega áhrif skuldamillifærslunnar eða niðurfærslunnar á stöðu ríkissjóðs og hvernig ríkissjóður getur verið í stakk búinn að takast á við mikla fjárfestingarþörf í grunnstoðum samfélagsins og takast á við mjög íþyngjandi skuldastöðu.

Ég er ekki á móti því að ýmislegt sé gert til að hafa skuldastöðu heimilanna góða og í ásættanlegu hlutfalli af landsframleiðslu. Ég held reyndar að skuldastaða heimila á Íslandi verði alltaf há í ljósi þess að það ríkir séreignarstefna á húsnæðismarkaði og þjóðin hefur því tilhneigingu til að skuldsetja sig til kaupa á húsnæði. Ef við viljum minnka skuldastöðu heimilanna mjög mikið held ég að við verðum að fara í mjög róttækar breytingar á húsnæðiskerfinu.

Ég studdi það og kom að því að búa til ýmsar aðgerðir til að leiðrétta skuldastöðu heimilanna á árunum eftir hrun. Það var augljóst að þess þurfti. Síðan fóru þær aðgerðir að bera árangur og nú er skuldastaða heimilanna komin niður undir 100% af landsframleiðslu. Það er mjög svipað og samfélög sem við getum borið okkur saman við í þeim efnum. Mér finnst ekki þörf á skuldaleiðréttingunum eins og er. Mér finnst það líka algert stílbrot í meðferð á opinberu fé að nota fjármuni almennings með þessum hætti. Það er ný tegund af skuldaleiðréttingum á Íslandi eftir hrun þegar þær eru fjármagnaðar algerlega úr ríkissjóði.

Það stingur í augu að allar óreglulegar tekjur sem koma inn úr viðskiptabönkunum og af arðgreiðslum þeirra og tekjur af af bankaskatti á að nota í skuldaniðurfærsluna, það er allt á sömu bókina lært, það eru svörin. Og meira að segja ef bankaskatturinn bregst verður mögulegt svigrúm sem skapast í ríkissjóði við afnám hafta notað í skuldaleiðréttinguna. Það að fjármögnun skuldaleiðréttingarinnar sé flýtt sparar ákveðnar upphæðir en þær upphæðir verða notaðar í skuldaleiðréttinguna. Í raun og veru eiga allar óreglulegar tekjur sem koma inn í ríkissjóð að renna í þetta. Það finnst mér skrýtið vegna þess að augljóst er að ríkisvaldið, grunnstoðirnar og innviðirnir, fengu á sig gríðarlegt áfall í efnahagshruninu, mikið högg. Það er verið að ganga á innviðina, við sjáum það bara á vegunum, þeim er ekki haldið við. Það safnar bara upp kostnaði ef þeim er ekki haldið við. Þörf er á nýjum spítala en það er ekki hægt að fara í hann. Peningarnir fara í skuldaleiðréttinguna. Það er þörf á fjárfestingu í menntakerfinu — hæstv. menntamálaráðherra talar síendurtekið um að við séum að dragast aftur úr þar — og það er þörf á því að greiða niður opinberar skuldir.

Hagstofa Íslands var að uppfæra þjóðhagsspá sína og það er ótrúlega eftirtektarvert að á sama tíma og allir þessir peningar fara í skuldaleiðréttinguna, niðurfærsluna, millifærsluna, hvað menn vilja kalla þetta, er engin aukning ráðgerð samkvæmt þjóðhagsspá Hagstofunnar á opinberum fjárfestingum á næstu fjórum árum. Engin. Þá hlýt ég að spyrja hæstv. fjármálaráðherra: Er þetta rétt? Hagstofan skoðar bara þær áætlanir sem hún hefur. Er það virkilega svo að engar áætlanir séu um aukna fjárfestingu í opinbera kerfinu á komandi árum? Það segir raunar líka í forsendum með fjárlagafrumvarpinu að ekki standi til að greiða niður upphæð skulda ríkissjóðs þó að þær minnki sem hlutfall af landsframleiðslu. Er það líka virkilega svo, (Forseti hringir.) munu skuldir ríkisins ekki minnka? Hvert er þá hlutverk ríkisvaldsins? Það er líka spurning þessu tengd. (Forseti hringir.) Á ríkisvaldið ekki að sjá til þess að skuldastaða ríkisins sé sjálfbær og innviðir þess góðir?