144. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2014.

skuldaleiðrétting og staða ríkissjóðs.

[16:00]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda fyrir að færa þetta mál hér inn í þingsal. Að sama skapi þykir mér leitt að hann skuli ekki vera hér akkúrat nú, því að ég ætlaði að eiga við hann orðastað um þetta mál.

Þannig er að hinn 18. maí 2009 flutti málshefjandi ræðu hér í þinginu. Mig langar aðeins að vitna í hana, með leyfi hæstv. forseta. Þar segir:

„Það er ögurstund í íslensku samfélagi. Fjölskyldur horfa upp á hækkandi höfuðstól upp á 20–100% og spurt er: Á þessi höfuðstóll að vera svona? Þetta er fólk sem getur kannski greitt þetta með því að leggja mikið á sig en það gerir ekki mikið annað á meðan. Á ekki að koma til móts við þær streðandi stéttir Íslendinga sem búa við þessi skilyrði sem þeim voru sköpuð án þess að þær lyftu litla fingri? Eina sem fólkið gerði var að kaupa sér íbúð og kannski bíl, kannski ekki einu sinni flatskjá. Á ekkert að gera til að koma til móts við hina stóru millistétt í landinu?“

Ég velti fyrir mér: Hvað er breytt nú annað en ártalið? Hv. þingmaður segir að það sé ekki þörf á þessu núna. Hann hefur samt samkvæmt netinu fundið hjá sér þörf til að sækja um þessa leiðréttingu og fengið ef marka má fréttir netmiðla. Ég óska honum til hamingju með það og hans fjölskyldu og vona að það komi sér vel.

Það eina sem hefur breyst er það að hv. upphafsmaður þessa máls hefur nú gengið til liðs við einn flokk enn og flokk sem á að stunda nýja pólitík en vill ekki koma til móts við heimilin í landinu. Vill flýta klukkunni en ekki koma til móts við heimilin í landinu. Lofar minna veseni nema hjá íslenskum heimilum. (Gripið fram í.) Gaman að heyra að fólk hefur skoðun á þessu.

Ég þakka fyrir þessa umræðu og vonast eftir því að menn geti tekið undir (Forseti hringir.) þá gleði sem ríkir á tugþúsundum íslenskra heimila um þessar mundir. (Gripið fram í.)