144. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2014.

skuldaleiðrétting og staða ríkissjóðs.

[16:07]
Horfa

Valgerður Gunnarsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Það er ekki þörf á skuldaleiðréttingunni, mér finnst það bara, sagði hv. málshefjandi Guðmundur Steingrímsson. Skuldaleiðréttingin er sannarlega réttlætismál og fyllilega tímabær gagnvart þeim hópi sem nú fær bættan forsendubrest varðandi sín húsnæðislán. Það er afar ánægjulegt að hitta og heyra í þeim fjölmörgu einstaklingum sem hafa fengið tilkynningu um að þeir fái leiðréttingu. Þeim finnst þungu fargi af sér létt. Þeir geti horft bjartari augun fram á við. Það hafi verið dregin frá gluggatjöld í þeirra lífi eða þeir geti loksins gert áætlanir til framtíðar svo að dæmi séu tekin um viðbrögð fólks.

Við vitum öll að langvarandi óvissa og óöryggi veldur bæði andlegri og líkamlegri vanheilsu og jafnvel sjúkdómum. Því getum við búist við að þegar birtir svo í lífi fólks muni það hafa jákvæð áhrif á heilsufar og stuðla að meiri bjartsýni og vellíðan og hvata til uppbyggingar í eigin ranni.

Það er líka ánægjulegt að heyra að þessi leiðrétting nær til svo margra. Hún vegur þyngst fyrir fólk sem er undir meðaltekjum og var innan við fertugt við forsendubrestinn; fyrir fólk sem á lítið fé í sínu eigin húsnæði og fer með leiðréttinguna jafnvel úr neikvæðri eign og upp í allt að 4 millj. kr. jákvæða eign.

Það er rétt að ítreka að þessi leiðrétting gengur til ráðstöfunar inn á lán fólks. Það fær enginn leiðréttingarfjárhæðina inn á sinn bankareikning til beinnar ráðstöfunar. En það er vissulega hverjum í sjálfsvald sett hvort hann nýtir sambærilega upphæð af ráðstöfunarfé sínu til mánaðarlegrar greiðslu næstu þrjú ár til góðra málefna eða þiggur hreinlega ekki leiðréttingarframlagið. (Forseti hringir.) Þrátt fyrir tilraunir ákveðinna afla til að grafa undan (Forseti hringir.) og smita út neikvæðni mun þessi aðgerð hafa jákvæð áhrif út í samfélagið og verða til uppbyggingar.