144. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2014.

skuldaleiðrétting og staða ríkissjóðs.

[16:19]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka umræðuna sem var mestu málefnaleg.

Hæstv. fjármálaráðherra talar stundum eins og það sé vegna þessara aðgerða sem skuldastaða heimilanna fari undir 100% af landsframleiðslu. Skuldastaða heimilanna er þegar komin undir 100% af landsframleiðslu. Við getum síðan deilt um hvort það sé æskilegt að hún sé það eða lægri eða hvað sé eðlilegt í þeim efnum. Hún er þegar komin undir 100% án þess að það hafi komið til aðgerðanna. Þess vegna er árið 2014 mjög ólíkt árinu 2009, hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson. Þá blasti við að skuldastaða heimilanna var upp undir 130% af landsframleiðslu. Það var augljóst að eitthvað þurfti að gera til að laga skuldastöðu heimilanna. Það var gert, meðal annars með þessum árangri. Ég kom stoltur að því að hanna ýmsar leiðir til þess að bregðast við skuldastöðu heimilanna.

Núna er æpandi þörf á opinberum fjárfestingum til þess að laga innviðina. Mörgum þingmönnum vafalítið til fróðleiks vil ég leggja á það þunga áherslu að innviðir samfélagsins eru fyrir heimilin. Spítalarnir eru fyrir heimilin. Vegirnir eru fyrir heimilin. Menntakerfið er fyrir heimilin. Þetta er allt saman fyrir heimilin. Við erum að ræða um það hvernig ríkissjóður á að nota fé sitt til að koma til móts við heimilin í öllum tilvikum. Borga niður skuldir ríkissjóðs. Vaxtagreiðslur ríkissjóðs á ári hverju eru upp undir 80 milljarðar. Ef þeir 80 milljarðar — þetta er í rauninni miklu, miklu hærri tala en segjum 80 milljarðar — sem fara núna beint í skuldaleiðréttingu án alls afleidds kostnaðar, færu í greiðslu opinberra skulda mundi það spara hátt í 6 milljarða á ári. Það er fjárfesting sem mundi borga sig á um 15 árum, allhressilega, skapa svigrúm í ríkisrekstrinum.

Ég tel réttlætanlegt, (Forseti hringir.) og ég vona að hæstv. fjármálaráðherra sé sammála mér um það, að nota óreglulegar tekjur eins og bankaskattinn til að (Forseti hringir.) fara í arðbærar fjárfestingar og greiða niður opinberar skuldir. Um það erum við að tala.

Mér finnst athyglisvert að í þessari umræðu virðist hæstv. fjármálaráðherra og aðrir stjórnarþingmenn segja pass þegar spurt er (Forseti hringir.) hvaða áætlanir eru fyrir hendi um greiðslu opinberra skulda og að byggja upp innviði.