144. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2014.

skuldaleiðrétting og staða ríkissjóðs.

[16:21]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Það er erfitt að komast yfir allt sviðið í svona stuttri umræðu en þetta hefur verið ágætlega yfirgripsmikið engu að síður. Það er greinilega ágreiningur um það milli stjórnar og stjórnarandstöðu hvort þörf hafi verið fyrir þetta umfangsmiklar aðgerðir. Gott og vel. Mér finnst hins vegar mjög erfitt að átta mig á því hvað stjórnarandstaðan vildi gera eða þeir sem mæla gegn þessum aðgerðum, vegna þess að í öðru orðinu er það viðurkennt að skuldastaðan sé vissulega erfið og margir eigi erfitt með að ná endum saman, það sé bara ekki þetta heldur eitthvað annað. En þetta „annað“ eða þetta „hvað“ finnst mér ofboðslega óljóst hér í umræðunni.

Menn spyrja um fordæmisgildi þessara aðgerða. Auðvitað er ekkert fordæmisgildi þegar menn setja einskiptisaðgerð með lögum og þeirri framkvæmd sem nú hefur farið út í. Með sama hætti mætti spyrja: Var það fordæmisgefandi þegar sérstakar vaxtabætur voru greiddar út eða þegar 110%-leiðin var farin eða hvað eina annað?

Aðalatriðið er það að þær aðgerðir sem gripið var til á síðasta kjörtímabili reyndust algerlega ófullnægjandi. Að mati hverra? Að mati kjósenda í landinu. Þess vegna var kosið um þetta mál. Við töluðum fyrir því í mínum flokki að fólk þyrfti að fá tækifæri til að lækka skuldir sínar um allt að 20% á næstu árum. Það er að nást í þeirri framkvæmd sem við erum hér með undir. Það skiptir máli.

Það er gott að menn viðurkenna mikilvægi þess að skuldirnar fari niður, vegna þess að það er grundvallaratriði. Heimilin eru grunneining samfélagsins og þau hafa verið í sárum. Það er rétt að skuldirnar hafa verið að lækka á undanförnum árum, smám saman, fyrir tilstilli alls konar aðgerða. Var það sanngjarnt að öllu leyti hvernig tekið var á gengislánamálum eða á öðrum skuldum? Ég veit það ekki, en það er að minnsta kosti ýmislegt búið að gera fyrir flesta aðra en þá sem falla undir þá aðgerð sem við ræðum hér í dag.

Hvað á að gera í innviðauppbyggingu? Við munum komast í færi til þess að auka framlög til innviðauppbyggingar, meðal annars að fara í Landspítala – háskólasjúkrahús. Varðandi skuldir hins opinbera er svo sem búið að teikna það (Forseti hringir.) upp hér með fjárlagafrumvarpinu hvernig skuldirnar fara að lækka á komandi árum. Það skiptir máli, jafnvel þótt ekki sé verið að greiða mikið upp nafnvirði skuldanna, að á meðan hér er landsframleiðsla verða þessar tilteknu skuldir okkur (Forseti hringir.) léttari. Þær verða okkur léttari byrði, vegna þess að við erum að stækka kökuna til að standa í skilum með þær. Svo munum við nota tækifærið til þess að greiða niður skuldir. Ég hef meðal annars bent á leiðir (Forseti hringir.) til þess — selja hlut í Landsbankanum til að greiða upp skuldir. (Gripið fram í.)