144. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2014.

starfsstöðvar lögreglustjóra í Norðausturkjördæmi.

234. mál
[16:32]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Bjarkey Gunnarsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra skilmerkileg og góð svör. Það er ánægjulegt að heyra að þetta gengur samkvæmt áætlun. Það er gott að vita að áhyggjur af því að hafa ekki áfram lögreglumann á Seyðisfirði eru úr sögunni og að sú staða hefur verið tryggð.

Ráðherrann sagði að drögin að reglugerðinni hefðu verið send til umsagnar og mig langar til að spyrja hann hverjar séu helstu athugasemdirnar sem hafa komið fram hjá embættunum eða þeim um þær fjalla, þ.e. hverjar þær séu í stórum dráttum.

Mig langar líka að spyrja um fjárveitingarnar. Það hafa komið fram töluverðar efasemdir um að fjárveitingarnar nægi til að sinna starfinu með sem bestum hætti og hvað þá með aukinni og betri þjónustu eins og sagt hefur verið að sé á döfinni. Það hefur verið gagnrýnt þar sem vegalengdir lengjast jafnvel og annað slíkt og þá dregur fólk þetta í efa.

Það er rétt með fjárveitingarnar og sértekjurnar á Austurlandi. Það er gott að heyra að það verður tekið til endurskoðunar væntanlega milli umræðna í fjárlögunum. Mig langar að spyrja hvort það sé eitthvert samtal við innanríkisráðherra vegna breytinganna. Nú er búið að skipta upp þessu ráðuneyti og ýmis verkefni áttu að færast til og frá — hafa þau verið einhver?

Svo langar mig að lokum að spyrja hvað líði starfshópi sem átti að sjá um menntamál lögreglumanna. Þessi starfshópur átti að skila 1. ágúst í fyrra og þá átti að vera búið að skila inn tillögum um hvernig menntamálunum yrði best fyrir komið. Var hópurinn stofnaður? Ég veit að hann er ekki búinn að skila. Hvað líður þeirri vinnu?