144. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2014.

innflutningur á grænlensku kjöti.

200. mál
[16:38]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni áhugaverða fyrirspurn. Ég er sammála honum í að það er mikilvægt að efla tengsl Íslands og Grænlands enda er það skrifað í stjórnarsáttmálann að svo skuli gera.

Varðandi þær reglur sem gilda um innflutning á rjúpum og kjöti af sauðnautum og hreindýrum frá Grænlandi til sölu í verslunum er svarið það að innflutningur á rjúpum og kjöti af sauðnautum og hreindýrum frá Grænlandi til sölu í verslunum fellur undir ákvæði reglugerðar nr. 448/2012, um varnir gegn því að dýrasjúkdómar og sýktar afurðir berist til landsins. Í 3. gr. reglugerðarinnar er fjallað um varnir gegn dýrasjúkdómum og þar er gerð nánari grein fyrir banni við innflutningi á ákveðnum afurðum dýra og vörum sem geta borið með sér smitefni er valda sjúkdómum í dýrum og mönnum og óheimilt er að flytja til landsins.

Í 4. gr. reglugerðarinnar segir að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sé heimilt, að fengnum meðmælum Matvælastofnunar, að leyfa innflutning á vörum sem taldar eru upp í 3. gr., sbr. 10. gr. laga nr. 25/1993, um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, ásamt síðari breytingum, enda þyki sannað að ekki berist smitefni með þeim er valda sjúkdómum í dýrum og mönnum og þau skilyrði sem sett hafa verið fyrir innflutningi séu uppfyllt. Innflutningur þessi fellur einnig undir ákvæði 3. gr. um að allur innflutningur dýraafurða frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins skuli fara um landamærastöðvar.

Enn fremur kemur fram í d-lið 5. gr. að með vörunni skuli fylgja opinbert vottorð sem staðfesti að dýrunum, sem afurðirnar eru af, hafi verið slátrað í sláturhúsum og afurðirnar unnar í vinnslustöðvum, viðurkenndum á Evrópska efnahagssvæðinu, ef um er að ræða vörur frá framleiðendum utan þess svæðis.

Á Grænlandi er aðeins sláturhús og vinnslustöð með ESB-viðurkenningu fyrir hreindýrakjöt en ekki fyrir kjöt af sauðnautum eða rjúpum. Þrátt fyrir ákvæði 4. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar er farþegum frá Grænlandi heimilt að koma með allt að 10 kíló af villibráð í farangri til landsins til einkaneyslu án skoðunar á landamærastöð að fengnu leyfi samkvæmt 4. gr. Þetta varðar sauðnautin og rjúpurnar.

Hver er tollur af slíkum varningi? spyr hv. þingmaður. Af rjúpum eru engir tollar, hið sama á við um hreindýrakjöt í heilum og hálfum skrokkum en af kjötinu af sauðnautum er 30% verðtollur og 363 kr./kg, svokallaður magntollur.

Einnig spyr hv. þingmaður hvort einhver hætta sé á að afurðir af framangreindum dýrum sem lifa villt í hreinustu og köldustu náttúru veraldar geti borið smit til Íslands. Svarið við því er að það er tiltölulega lítil hætta á því að smit geti borist til Íslands með afurðum viðkomandi dýra. Þó er hugsanlegt að sníkjudýrið tríkína geti fundist í kjöti af sauðnautum og hreindýrum, en hér er einungis um að ræða almennar reglur og þær taka því ekki mið af sjúkdómastöðu í mismunandi löndum eins og Grænlandi þar sem kannski er líka nokkuð óljóst hvernig staðan er.