144. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2014.

innflutningur á grænlensku kjöti.

200. mál
[16:44]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Það eru mér fréttir að þess væri að vænta að menn gætu fundið tríkínur í holdi hreindýra og sauðnauta. Það hef ég aldrei heyrt. Ég vissi að þær væri að finna í ísbjarnakjöti enda ét ég það aldrei nema mjög vel soðið. Svona skrifræðislegur fyrirsláttur er ekkert annað en viðskiptahindranir.

Veltum aðeins fyrir okkur sauðnautum sem nóg er af á Grænlandi og frjáls kvóti er á. Það er allt of mikið af sauðnautum þar, hvers vegna í ósköpunum skyldum við ekki ýta undir að Íslendingar kynntust þessu dásamlega kjöti? Í dag er staðan þannig að ef menn eru hirtir með þetta leyfislausir er eins og verið sé að taka þá með stóran skammt af fíkniefnum. Þetta þekkjum við sem stundum förum til Grænlands, og ekki síst Grænlendingar sjálfir.

Herra trúr, hvað kallar maður það ef þarf að slátra sauðnauti sem gengur villt í náttúrunni og meðhöndla það í sérstaklega vottuðu sláturhúsi? Ég lít svo á að það sé viðskiptahindrun, sérstaklega í ljósi þess að grænlensk náttúra er hrjóstrug og köld. Þar er ekkert smit að finna eins og hæstv. ráðherra gat um áðan.

Svo veltir maður fyrir sér hugtakinu landamærastöð. Hvernig er það í praktíkinni? Jú, ef Grænlendingar ætla að fara til Danmerkur úr sínu kalda umhverfi geta þeir farið með svipað magn af kjöti og þurfa engin leyfi til þess. Enginn segir neitt við því. Ef það er leyfilegt hlýtur það að vera vegna þess að Danmörk túlkar reglur Brusselveldisins með þeim hætti að slíkt sé ekki í andstöðu við það. Þá hlýtur hið sama að gilda á Íslandi líka. Ég velti þá fyrir mér hvort við Íslendingar séum farnir að túlka reglur Evrópusambandsins um matvælaeftirlit miklu stríðar en Evrópusambandið sjálft.

Að öðru leyti þakka ég hæstv. ráðherra fyrir skilmerkileg svör og þann góða hug sem í þeim kom fram gagnvart Grænlendingum og samstarfi okkar við þá.