144. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2014.

innflutningur á grænlensku kjöti.

200. mál
[16:47]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka umræðuna sem hér hefur farið fram og áhuga þingmanna á því að efla tengsl við Grænland. Ég get fullvissað þá um að ríkisstjórnin stendur einhuga að baki því.

Þó er merkilegt að upp komu þrír þingmenn Samfylkingarinnar sem hafa talað dálítið um regluverk Evrópusambandsins og mikilvægi þess — ég get reyndar tekið undir með hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni að stundum hefur mér þótt við Íslendingar vera kaþólskari en páfinn — og töluðu um að þeim reglum sem Evrópusambandið hefur sett, þeirri matvælalöggjöf sem við tókum hér upp og öllu því regluverki sem tilheyrði því mætti bara ýta til hliðar eins og ekkert væri. (Gripið fram í: … græða …) Það er svolítið sérkennilegt.

Varðandi áhættuna er það svo að ef einstaklingur tekur með sér einhverjar vörur er það ekki háð opinberu eftirliti. Um leið og varan fer í almenna dreifingu í verslunum á Íslandi tekur hið opinbera það á sig að tryggja að matvaran sé örugg. Mér fannst þetta mjög áhugaverð umræða frá hv. þingmönnum Samfylkingarinnar.

Ég tek undir að það er mikilvægt að koma á fríverslunarsamningi. Ég veit að Ísland hefur ekki staðið í vegi fyrir því heldur hafa Grænlendingar velt mikið fyrir sér hvort þeir ættu að gerast aðilar að Hoyvíkursamningnum sem við gerðum við Færeyinga en þeir hafa ekki verið tilbúnir til þess.

Varðandi innflutningstolla er það þannig, eins og ég fór yfir, að það eru engir tollar á rjúpum og hreindýrum heldur fyrst og fremst á sauðnautunum. Ég fór yfir það hvernig þeir eru til komnir.

Að öðru leyti get ég svo sagt að í matvælaeftirliti alls staðar, og sá sem hér stendur lærði það í Danmörku, er leitað að tríkínum og það er enn leitað að tríkínum í svínakjöti vegna þess að tríkínur geta komist í fóður. Grænland er einn þeirra staða þar sem uppspretta þess gæti verið. Ef hv. þm. Össur Skarphéðinsson hefði fengið slíkt sníkjudýr í sig og það tekið sér bólfestu í vöðvum hans væri hann ekki jafn áhugalítill um áhyggjur af því hversu alvarlegt það væri eins og hann var í ræðustól áðan. (ÖS: … jafn hress og …)