144. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2014.

brotthvarf Vísis frá Húsavík.

229. mál
[16:59]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Mér þótti hæstv. sjávarútvegsráðherra senda Húsvíkingum heldur kaldar kveðjur. Hér kom hann og skilaði gersamlega auðu. Það eina sem hann hafði að segja var það að ríkisstjórnin hefði á stefnuskrá sinni að efla ýmiss konar atvinnutækifæri víðs vegar um landsbyggðina. Hitt sem hann hafði fram að færa var — jú, það voru verk fyrri ríkisstjórnar að ná til Húsavíkur fyrirtækinu PCC sem vonandi á eftir að vera gild stoð undir byggðarlaginu.

Eigi að síður blasir það við, og er bara einfalt reikningsdæmi, að það sem hverfur með ákvörðun Vísis eru 66 störf og þau ásamt ýmiss konar afleiddri þjónustu eru nánast helmingurinn af þeim ávinningi sem felst í PCC.

Frú forseti. Kvótakerfið hefur leitt margt gott af sér og meðal annars verndað stofnana, en á því eru skuggahliðar. Flateyri og Húsavík sýna þessar skuggahliðar kvótakerfisins. Það verður að bregðast með einhverjum hætti við þeim.