144. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2014.

brotthvarf Vísis frá Húsavík.

229. mál
[17:00]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Mér þykir leitt að segja að svar hæstv. ráðherra skilaði engu. Það var útlisting á því hvernig farið er með byggðakvóta og hvernig honum er úthlutað, til byggðarlaga þar sem búa færri en 400 manns o.s.frv. Allt þetta vissi ég. Vandinn er hins vegar sá í hnotskurn að á Húsavík, sem ég hef hér gert að umtalsefni, voru 66 störf lögð niður á einu bretti þegar fyrirtæki ákvað að fara og það er mjög alvarlegt mál.

Menn tala um fábreytt atvinnulíf hjá þeim sem eiga kost á því að fá byggðakvóta til sín vegna svona áfalla — sem mótvægisaðgerð, jú, það er rétt og menn hafa talað um ýmislegt sem þeir ætla að gera í því sambandi. En þarna er staðan svo alvarleg að helmingurinn af ávinningnum af hinni miklu uppbyggingu, sem fer vonandi að hefjast á Bakka við Húsavík, gæti orðið að engu. Ég gæti nefnt, ef ég hefði meiri tíma, ýmislegt annað sem hefur farið í burtu.

Virðulegi forseti. Ég vil líka nefna, vegna þess að það var líka rætt við okkur þingmenn, þau áform sem ríkisstjórnin hefur uppi um að breyta framhaldsskólakerfinu í landinu, skera niður nemendaígildi o.fl. Það getur haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir þann framhaldsskóla sem rekinn er á Húsavík. Það kom fram á fundinum og menn hafa miklar áhyggjur af því. Ríkið er líka, þó að það sé ekki stórt, að beita sér fyrir því að lítið hlutastarf hjá Vinnumálastofnun verður lagt niður. Hér áðan var verið að ræða um hin nýju sýslumannsembætti. Það var líka rætt við okkur að það mál er í mikilli upplausn vegna þess að menn vita ekkert hvernig á að framkvæma það; og sýslumannsembættin verða í raun fjársvelt til að gera það sem átti að gera.

Virðulegi forseti. Ég vona að hæstv. ráðherra komi í seinna svari með meira kjöt á beininu. Ég bið hann um að kenna veiðigjaldinu ekki um þetta að þessu sinni, vegna þess að umrætt fyrirtæki, sem ég er hér að tala um, sem er að flytja starfsemi sína frá Húsavík, er það fyrirtæki sem fær mestu afslætti af veiðigjöldum á Íslandi og hefur fengið undanfarin ár.

Ég mun síðar gera að umtalsefni það sem er að gerast á Djúpavogi vegna þess að þar er líka sviðin jörð þegar fyrirtækið fer.