144. löggjafarþing — 34. fundur,  18. nóv. 2014.

störf þingsins.

[13:37]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Það hefur eflaust ekki farið fram hjá neinum að skuldaaðgerðir ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar hafa orðið að veruleika. Undanfarna daga hefur verið ánægjulegt að fylgjast með umræðunni og ekki síst hjá aðilum sem hafa barist fyrir því frá árinu 2009 að forsendubresturinn sem heimilin urðu fyrir yrði leiðréttur. Má í því samhengi nefna Vilhjálm Birgisson, verkalýðsleiðtoga á Akranesi, sem sagði, með leyfi forseta:

„Það er ótrúlegt að heyra í fulltrúum þeirra stjórnmálaflokka sem voru í síðustu ríkisstjórn að tala um að það væri röng forgangsröðun að leiðrétta forsendubrest heimilanna. Halló! Eru þessir aðilar búnir að gleyma að fyrrverandi ríkisstjórn pumpaði fjármunum frá skattgreiðendum til bjargar fjármálakerfinu?“

Í samhengi við þetta segir Vilhjálmur, með leyfi forseta:

„Hugsið ykkur, það heyrðist ekki orð frá þessu sama fólki þegar 440 milljarðar voru notaðir af skattfé almennings til björgunar fjármálakerfinu.“

Jafnframt langar mig að vísa í orð Ólafs Arnarsonar hagfræðings. Stuttu eftir að niðurstöður leiðréttingarinnar voru birtar sagði hann í viðtali á Bylgjunni, með leyfi forseta:

„Það er verið að sækja þá peninga sem notaðir eru í leiðréttinguna til kröfuhafanna. Undanþága slitabúa gömlu bankanna frá skattheimtu var afnumin svo hægt væri að sækja peninga beint til þeirra kröfuhafa sem eiga þrotabúin.“

Í viðtalinu blæs hann á þær raddir sem halda því fram að peningarnir séu ekki sóttir til kröfuhafa og hrægamma. Hann segir þetta nýjan tekjustofn og að ríkissjóður hafi þar eingöngu milligöngu. Jafnframt segir hann í viðtalinu, með leyfi forseta:

„Fjármagn leiðréttingarinnar kemur beint frá kröfuhöfum. Öll önnur slagorð og upphrópanir eru ekkert annað en lýðskrum.“

Mig langar að enda ræðuna á orðum fólks sem hefur haft samband við mig undanfarna daga og sagt: Reiðin hefur kraumað undanfarin ár vegna óréttlætis í garð heimilanna. Fjármálastofnanir og atvinnulíf hafa fengið mikla hjálp en við höfum átt að bjarga okkur sjálf. Takk fyrir að koma fram með þessa aðgerð sem viðurkennir að það voru ekki heimili (Forseti hringir.) landsins sem báru ábyrgð á hruninu.