144. löggjafarþing — 34. fundur,  18. nóv. 2014.

störf þingsins.

[13:42]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Nú hafa fasteignaveðlán heimilanna verið færð niður með aðgerðum ríkisstjórnarinnar um liðlega 6%. Það er út af fyrir sig jákvætt gagnvart þeim sem þess njóta þó að við í Samfylkingunni höfum lagt til að þeir sem eigi yfir 30 millj. kr. í hreinni eign væru undanskildir aðgerðunum og höfum ekki haft sannfæringu fyrir því að þeir sem keyptu fyrir árið 2004 hefðu orðið fyrir forsendubresti því að fasteignir þeirra hafa hækkað eins og lánin eða meira. Stærri ágalli er þó sá stóri hópur leigjenda sem skilinn er eftir í aðgerðunum, fjórða hvert heimili í landinu eins og við höfum rætt hér.

En það eru því miður fleiri hópar sem liggja óbættir hjá garði. Ég vil nota þetta tækifæri og hvetja stjórnarmeirihlutann til að láta hið sama ná til fólks sem er í búseturéttaríbúðum. Það fólk varð fyrir jafn harkalegum skelli í verðbólgunni. Það varð fyrir jafn harkalegum hækkunum á lánum sem á eignum þeirra hvíla. Ég held að það sé ákaflega einfalt mál að þetta fólk eigi kröfu á því að vera meðhöndlað með sama hætti og aðrir húsnæðiseigendur. Ég kalla eftir því að þeir fái að njóta sömu niðurgreiðslu og þeir sem fengu skuldir sínar niðurfærðar í síðustu viku.