144. löggjafarþing — 34. fundur,  18. nóv. 2014.

störf þingsins.

[14:05]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í morgun vorum við að ræða framkvæmd sýslumanna við uppboð. Ég hef lengi verið að reyna að átta mig á því hvernig þetta ferli virkar og hvort það sé ekki örugglega farið að ýtrustu lögum og reglum þegar verið er að taka heimilið af neytendum, leikmönnum, fólki sem er gerðarþolar í málum um nauðungarsölu, þegar gert er uppboð á heimili fólks.

Eitt varð skýrara í morgun og það er að þegar kröfuhafi kallar eftir því að farið skuli í nauðungarsölu á grundvelli gengistryggðs lánasamnings, sem búið er að dæma ólöglegan, en lánastofnunin hefur bara reiknað það út — þetta er eins og við reiknum þetta út — þá taka sýslumenn það gilt og það er farið í þetta ferli en einhvers staðar í ferlinu þarf að reikna hvort þessi krafa sé rétt. Nú hafnar gerðarþoli, neytandinn í málinu, því og segir: Nei, þetta er rangur útreikningur, og þá þarf hann að fara fyrir dómstóla með það. Sýslumaður stöðvar ekkert ferlið, við skulum athuga þetta. Nei, gerðarþolinn þarf að fara fyrir dómstóla, neytandinn, leikmaðurinn, hann þarf að fara fyrir dómstóla.

Hvers vegna nefni ég þetta og í hvaða samhengi er þetta mikilvægt? Þetta er náttúrlega grundvallaratriði, um er að ræða heimili fólks, og þetta vandamál er ekki að fara. Ef verðtryggð neytendalán verða dæmd með ólögmæta viðskiptaskilmála, sem Hæstiréttur mun þurfa að taka afstöðu til um mitt næsta ár, mun fjöldi fólks vera með lán sem mundu ekki lenda undir hamrinum ef þau væru rétt reiknuð.

Þetta mál verður með okkur. Það þarf klárlega að taka á nauðungarsölulögunum ef staðan er sú að neytandinn, leikmaðurinn, þarf að sækja fyrir dómstólum meðan fjármálastofnanir geta lagt fram sína útreikninga og þeir séu teknir gildir nema farið sé fyrir dómstóla að frumkvæði og á kostnað neytandans. Það er víða pottur brotinn í þessu ferli. (Forseti hringir.) Það þarf að skoða og þetta mál er ekki að fara frá okkur.