144. löggjafarþing — 34. fundur,  18. nóv. 2014.

hagnýting internetsins og réttindavernd netnotenda.

16. mál
[14:13]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti með breytingartillögu á þskj. 517 við 16. mál sem er tillaga til þingsályktunar um vistkerfi fyrir hagnýtingu internetsins og réttindavernd notenda. Fyrsti flutningsmaður þessarar tillögu var hv. þm. Jón Þór Ólafsson og voru 17 aðrir þingmenn meðflutningsmenn þessarar tillögu.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Mörð Ingólfsson, stjórnarmann í IMMI, alþjóðlegri stofnun um upplýsinga- og tjáningarfrelsi. Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Farice, Forriturum framtíðarinnar, Háskóla Íslands, IMMI, ISNIC, Klak Innovit, Landsvirkjun, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Persónuvernd, Póst- og fjarskiptastofnun, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum iðnaðarins og starfsgreinahópum innan þeirra, Samtökum verslunar og þjónustu, Viðskiptaráði Íslands og Vodafone.

Í málinu er lagt til að ráðherra skipi starfshóp sem móti stefnu um að skapa kjöraðstæður hér á landi fyrir hagnýtingu internetsins og annarrar upplýsingatækni ásamt því að verja réttindi netnotenda. Jafnframt geri stjórnvöld tillögur um nauðsynlegar breytingar á lögum til að stefnan nái fram að ganga.

Tillagan byggist á greinargerð starfshóps iðnaðar- og viðskiptaráðherra um hagnýtingu internetsins í þágu nýsköpunar og atvinnuþróunar og er hún birt í fylgiskjali með tillögunni. Í greinargerðinni er getið um helstu atriði sem snerta starfsumhverfi internetsins: Í fyrsta lagi laga- og viðskiptaumhverfi, svo sem ábyrgð hýsingaraðila á gögnum og skattumhverfi, í öðru lagi tengingu við útlönd í formi fjarskiptasæstrengs, í þriðja lagi aðgang fyrirtækja að fjármagni og í fjórða lagi mannauð og er þar bæði átt við tækifæri til að laða erlenda sérfræðinga að landinu og framboð menntunar á þessu sviði á öllum skólastigum.

Í greinargerð tillögunnar kemur fram sú hugmynd að starfshópurinn skili ráðherra greinargerð með tillögum til úrbóta á þriggja mánaða fresti. Það kann að vera of íþyngjandi fyrir hópinn en nefndin telur mikilvægt að ráðherra verði reglulega og eftir því sem verkinu vindur fram upplýstur um stöðu þess.

Langflestir sem sendu nefndinni umsögn um tillöguna fagna henni, telja hana mikilvæga eða taka undir þau sjónarmið sem í henni koma fram og leggst enginn gegn henni. Í umsögnum er vísað til ýmissa atriða sem nefndin telur vert að benda á.

Fram kemur að tækifæri hafi glatast vegna lagaumhverfisins hér á landi og að brýnt sé að endurskoða lagarammann til að nýta sem best þau viðskiptatækifæri sem netið býður upp á. Einnig er bent á að hérlendis skorti mjög starfsfólk með menntun í upplýsingatækni og að jafnframt sé tækni- og tölvukennslu í grunn- og framhaldsskólum ábótavant. Því þurfi að gera menntun á þessu sviði enn hærra undir höfði. Þá lýsa ýmsir þeirri skoðun að regluverkið sem varðar internetið megi ekki vera svo flókið að framþróun þess verði hamlað eða nauðsynlegt frelsi heft. Lagaumgjörðin kringum netið verði að vera stöðug og því þurfi að leitast við að stíga varlega til jarðar við setningu laga og reglna. Jafnframt er vísað til þess að stór hluti nýsköpunar lúti að tækifærum sem felist í hagnýtingu internetsins og að mikilvægt sé fyrir afskekkt land að halda góðum tengingum við alþjóðlega markaði. Þá kemur auk þess fram að almennt megi bæta rekstrarskilyrði fyrirtækja hér á landi. Hvað varðar notkun internetsins er bent á að notkunin sé ómissandi þáttur í lífi almennings í mörgum ríkjum en ekki bundin við afmarkaðan hóp. Að auki er bent á þá staðreynd að nettengingum sé víða ábótavant í dreifðari byggðum og mikilvægt sé að mótuð verði stefna um uppbyggingu háhraðatenginga.

Nefndin leitaði eftir því við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið að kostnaður við samþykkt tillögunnar yrði metinn. Niðurstaða ráðuneytisins var sú að kostnaður gæti orðið 4 millj. kr. vegna úttektar á lagaumhverfi hér á landi og erlendis, auk 3 millj. kr. fyrir gerð og kynningu á stefnunni.

Nefndin leggur til að tillagan sem fulltrúar allra flokka á Alþingi lögðu fram verði samþykkt með eftirfarandi breytingum:

Í fyrsta lagi er lagt til breytt heiti tillögunnar.

Í öðru lagi eru lagðar til orðalagsbreytingar á 1. og 2. mgr. tillögugreinarinnar, m.a. að nota orðið „kjöraðstæður“ fremur en orðin „vistkerfi“ og „kjörlendi“.

Í þriðja lagi er lagt til að Samtök verslunar og þjónustu tilnefni einn fulltrúa í starfshópinn.

Í fjórða lagi er til einföldunar lögð til breyting á lokamálsgrein tillögunnar sem varðar skýrslu sem ráðherra skal leggja fyrir þingið.

Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt með þeim breytingartillögum sem ég gat um og eru á umræddu þingskjali, þ.e. þskj. 517.

Þetta mál var tekið út úr atvinnuveganefnd Alþingis 11. nóvember sl. og undir nefndarálitið skrifa: Jón Gunnarsson formaður, Kristján L. Möller framsögumaður, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Haraldur Benediktsson, Ásmundur Friðriksson, Björt Ólafsdóttir, Páll Jóhann Pálsson, Þorsteinn Sæmundsson og Þórunn Egilsdóttir. Jón Þór Ólafsson, 1. flutningsmaður þessarar tillögu, sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er að sjálfsögðu samþykkur áliti þessu. Þess ber þó að geta að þar sem hann er áheyrnarfulltrúi í nefndinni þá segja lög Alþingis að hann geti ekki flutt það nefndarálit sem ég tók að mér að lesa upp sem hefði auðvitað farið betur á að hv. þingmaður hefði gert og fylgt þannig máli sínu eftir til enda.