144. löggjafarþing — 34. fundur,  18. nóv. 2014.

hagnýting internetsins og réttindavernd netnotenda.

16. mál
[14:38]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil sem einn af nefndarmönnum í atvinnuveganefnd og áhugamaður um internetið á Íslandi tjá mig um þá góðu tillögu sem hér er komin til síðari umræðu á Alþingi og til samþykktar, vegna þess að full samstaða var um það í nefndinni að samþykkja tillöguna með þeim breytingum sem lagðar voru til.

Ég vil nota tækifærið og þakka aftur hv. þm. Jóni Þór Ólafssyni fyrir að beita sér fyrir þessari tillögu og skrifa svo góða greinargerð með henni sem raun ber vitni, og þeim 17 þingmönnum öðrum, fulltrúum allra flokka, sem eru meðflutningsmenn tillögunnar. Hér hefur verið unnið faglega og vel og einmitt þess vegna gekk svo vel í atvinnuveganefnd, með jákvæðum umsögnum allra aðila, að taka málið út úr nefnd þetta snemma og koma því hingað til síðari umr. og samþykktar á næstu dögum. Fyrir það vil ég þakka alveg sérstaklega vegna þess að þetta snýst auðvitað, eins og hv. þingmaður sagði, um hagsmuni Íslands.

Það sem ég vil leggja svolítið meiri áherslu á í ræðu minni — þegar ég er ekki að flytja hið ágæta nefndarálit sem allir skrifuðu upp á, þá bætir maður ekki við frá eigin brjósti heldur kemur hér aftur — ég vil nefna nokkur atriði og ítreka þau vegna þess að eins og við segjum eru bæði nefndarálit og ræður ákveðnar vísbendingar og rökstuðningur fyrir málinu. En þegar ég tala um hagsmuni Íslands tek ég fyrir hagsmuni Íslands alls.

Sem betur fer eru nettengingar yfirleitt í lagi og góðar á höfuðborgarsvæðinu og í stærri sveitarfélögum en það er annað í hinum dreifðu byggðum, í litlum sveitarfélögum sem eru jafnvel undir 200 eða í dreifbýlinu sjálfu þar sem netsamband er lélegt eða ekki nógu gott.

Þá ætla ég að fara í smáupprifjun. Ég kom á þing 1999 og má hugsa til þeirrar framþróunar sem hefur orðið í störfum okkar alþingismanna á þessum ekkert langa tíma, maður telur þó nokkuð mörg ár. Ég man eftir því að þegar við vorum að samþykkja hér alþjóðlegustu kröfur og setja það inn sem átti að vera ISDN á öll heimili. Alþingi var nánast rétt búið að samþykkja þetta þegar það var orðið úrelt. Síðan tóku við öll þessi kerfi og flotta þróun sem hefur orðið síðan þá sem hefur stórbætt háhraðatengingar, hraðann sem þetta snýst allt um, en því miður er það þannig víða um landið að það er ekki nógu gott.

Sem dæmi um hvað það er í raun og veru stutt síðan var það á árunum 2007–2008, í þeirri ríkisstjórn sem tók við eftir kosningar, sem ég fékk að gegna embætti samgönguráðherra og sinnti fjarskiptamálum. Þá var strax farið að vinna með og áfram að lagningu annars fjarskiptastrengs frá Íslandi vegna þess að sambandið var ekki nógu gott, við þurftum hringtengingu. Gamli strengurinn var farinn að bila mikið og það gat gerst, hvort það var í Skotlandi, að ákveðin dýrategund kroppaði í strenginn og felldi út netsamband. Þetta var auðvitað engan veginn boðlegt og þess vegna ákvað sú ríkisstjórn að ráðast í það mikla verkefni að leggja þennan nýja streng. Svo varð hrun og ýmsar viðskiptaforsendur, kostnaður og fleira, tók mið af hruninu og því að allt tvöfaldaðist í raun í verði við fall krónunnar. Þar að auki lentum við í vandræðum vegna þess að við töldum okkur þurfa að flýta okkur, af því að það voru að koma ótalmörg gagnaver. Þá þurftum við að flýta okkur, við lentum í slæmu veðri, kostnaður jókst, síðan seinkaði þessu o.s.frv. En aðalatriðið var viðskiptamódelið sem slíkt, þannig lagað, hvað varðaði auknar tekjur vegna gagnavera og aukinnar flutningsþjónustu, öllu seinkaði út af ástandi efnahagsmála, ekki aðeins á Íslandi heldur í heiminum. Það kemur okkur sem betur fer til góðs núna að hafa þetta og það er m.a. þess vegna sem Ísland er svo fýsilegur kostur fyrir gagnaver. Vonandi tekst okkur að fá þau miklu fleiri vegna þess að þar að auki seljum við í raun kuldann, sem er eitt af viðskiptamódelunum fyrir gagnaverin, að þurfa ekki að kosta eins miklu rafmagni til að kæla, af því að við erum á norðurhjara.

Árið þar á eftir var tekin ákvörðun um annað og meira, þ.e. að fara í fjarskiptaútboð á vegum fjarskiptasjóðs, að leggja það sem kallað var háhraðatenging á öll þau svæði þar sem markaðsbrestur var, þar sem fyrirtæki á markaði komu ekki inn og vildu ekki koma inn, þetta var í raun markaðsbrestur þar sem fjarskiptafyrirtæki vildu ekki koma inn og leggja strengi sína. Þá var þetta útboð gert og farið í þá miklu vinnu og ég man eftir að allir fögnuðu því mjög að fara í verkefnið. En það er mjög merkilegt, kannski ekki merkilegt heldur ofureðlilegt miðað við hvað þróunin er hröð, að eitt af mörgum áhyggjuefnum sem fulltrúar sveitarfélaga ræddu við þingmenn í kjördæmaviku, og þá hygg ég að það hafi verið í öllum dreifbýliskjördæmunum, var skortur á háhraðatengingum og hægt og lélegt fjarskiptasamband.

Málin stóðu þannig við fjárlagagerð 2009, frekar en 2010, að málið var eiginlega allt í uppnámi hvað varðaði að halda því áfram vegna þess að það vantaði peninga. Ég man eftir því að við 3. umr. fjárlaga var búið að setja inn 250 millj. kr. sem áttu að koma til hafnasjóða víða á landinu út af ýmsu sem hafði gerst varðandi minnkandi veiðar o.fl., það átti að koma til móts við þá með framlagi úr ríkissjóði. Við þessa 3. umr. tókst okkur og fengum samþykkt að færa þessa peninga yfir í fjarskiptasjóð. Þess vegna hélt þetta áfram. Þetta er ágætissöguskýring vegna þess að það þarf ekki að fara lengra aftur en þetta. Grundvallaratriði er, eins og fjallað er um í tillögunni sem er er auðvitað fyrir allt Ísland, að það blandast inn í þetta og ég trúi því og treysti að í vinnu þessa starfshóps verði vel að því gætt. Það var mjög merkilegt sem kom fram í kjördæmaviku, hve mörg sveitarfélög eru sjálf og á eigin kostnað að leggja ljósleiðara um sveitarfélag sitt, inn á hvert heimili.

Ég man það líka að í þessum tillögum, þegar við vorum að skoða þetta, var talað um að fullkomið net væri að leggja ljósleiðara inn á hvert heimili og ef ég man rétt var kostnaðurinn talinn vera 30 eða 35 milljarðar kr. á þáverandi verðlagi, sem var landinu náttúrlega ofviða á þeim tíma og litlir fjarskiptasjóðir höfðu ekkert slíkt.

Þetta segi ég, virðulegi forseti, vegna þess að hér er líka talað um viðskipti og þjónustu, fyrirtæki í þessu sambandi. Þá tek ég aftur dæmi af hinum dreifðu byggðum. Við sem komum úr þessum landsbyggðarkjördæmum heyrum frásagnir rekstraraðila, t.d. á hótelum, af fólki sem hefur pantað sér hótelgistingu, komið og tékkað sig inn á vondri íslensku, farið inn á herbergi en komið skömmu seinna með töskuna og ætlað að tékka sig út. Og af hverju? Vegna þess að það var ekki fullnægjandi og gott netsamband. Það er bara þannig í nútímanum að fólk verður að hafa þessi þægindi, hvort sem er fyrir símann sinn eða tölvur. Þetta er það sem kemur í ljós. Af því að ég sé tvo hv. samþingmenn mína úr Norðausturkjördæmi þá er það ákaflega minnisstætt þegar við uppgötvuðum hversu langan tíma það gat tekið þegar menn voru að borga fyrir hótelgistingu og það var aðeins vegna þess að netsambandið við posann var svo lélegt.

Þetta vildi ég setja fram og líka minna á það að netið gegnir ofboðslega miklu hlutverki í fjarmenntun manna í dreifbýli. Það er bráðnauðsynlegur þáttur og á í raun og veru ekki að þurfa að ræða. Þetta er mikilvægt atriði. Það höfum við líka heyrt úr landsbyggðarkjördæmunum, fólk kvartar yfir því að geta ekki stundað fjarnám frá heimilum sínum vegna þess að netsambandið er svo hægt, það tekur langan tíma. Fræg var nú sagan sem sögð var af framsóknarmanni á Hallormsstað, og það hefur auðvitað átt við fleiri en framsóknarmenn, en hann vildi frekar keyra niður á Egilsstaði til að prenta út í fjarnáminu heldur en bíða eftir því á Hallormsstað. Það tók sem sagt styttri tíma að keyra fram og til baka og prenta út en að prenta út á Hallormsstað. Ég vona að það hafi batnað núna.

Virðulegi forseti. Aftur að tillögunni sem atvinnuveganefnd hefur lagt til að verði samþykkt með lítils háttar breytingum sem er orðalag og um skýrsluskil, sem er allt saman til góða. Ég vil ljúka máli mínu á því sem ég byrjaði á og þakka hv. þingmönnum Jóni Þór Ólafssyni og Birgittu Jónsdóttur sem situr hér líka, fulltrúum Pírata sem eru tveir fyrstu flutningsmenn þessarar tillögu, svo og þeim þingmönnum öðrum sem skrifuðu upp á tillöguna og færðu hana heim til Alþingis, en frumkvæðið var greinilega þarna. Það var ákaflega gaman að vinna þessa vinnu í atvinnuveganefnd og eins og hér hefur komið fram voru flestallar ef ekki allar umsagnir mjög jákvæðar og þessi vegna er tillagan komin hingað núna. Það er líka til marks um breytt vinnubrögð á Alþingi að þingmannafrumvarp, jafnvel þingmanna úr minni hluta, ég ætla ekki að segja stjórnarandstöðu vegna þess að það á ekki við í svona málum, að fulltrúar í minni hluta séu komnir með mál til enda þannig að það verði samþykkt á næstu dögum. Til hamingju með það.