144. löggjafarþing — 34. fundur,  18. nóv. 2014.

hagnýting internetsins og réttindavernd netnotenda.

16. mál
[14:55]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Frú forseti. Mig langaði bara að taka saman umræðuna. Allt ferlið er ótrúlega jákvætt og ég er mjög þakklátur öllum sem að verkinu hafa komið.

Varðandi tækifærin. Já, við höfum tapað svolitlu af tækifærum á síðustu árum. Ég vitna í umsögn Landsvirkjunar um þingsályktunartillöguna, með leyfi forseta:

„Í samræmi við stefnu Landsvirkjunar hefur fyrirtækið unnið skipulega að því að fjölga viðskiptavinum þess í gagnaversiðnaði. Undanfarin ár hafa fjölmargir stjórnendur alþjóðlegra upplýsingatæknifyrirtækja sýnt áhuga á að staðsetja gagnaver sín á Íslandi auk þess sem ráðgjafar í gagnaversiðnaði, rekstraraðilar gagnavera og fleiri aðila hafa heimsótt Landsvirkjun og Ísland í sama tilgangi. Landsvirkjun hefur unnið með öllum helstu hagsmunaaðilum innan lands með það að markmiði að stækka gagnaversiðnaðinn enda [er það] trú fyrirtækisins að ef vel [tekst] til [muni] innan nokkurra ára vera starfræktur fjöldi alþjóðlegra gagnavera hér á landi með tilheyrandi verðmæta- og atvinnusköpun. Landsvirkjun hefur í þessu ferli öðlast góðan skilning á því hvaða atriði alþjóðleg fyrirtæki í upplýsingatækniiðnaði leggja áherslu á þegar þau velja staðsetningu fyrir gagnaver.“

Á Íslandi eru sérstaklega hagstæð grunnskilyrði til að reka gagnaver. Hér eru samkeppnishæfir langtímasamningar um orkukaup og kalt loftslag, gagnatengingar, staðsetning landsins og fleiri atriði gera rekstrarkostnað gagnavera mjög samkeppnishæfan á heimsvísu. Á undanförnum árum hafa þó stór alþjóðleg fyrirtæki í upplýsingatækniiðnaði valið að reisa gagnaver í nágrannalöndum okkar frekar en hér á landi. Það eru tækifæri sem hafa tapast.

Á meðal þeirra atriða sem fyrirtækin huga sérstaklega að er viðskiptaumhverfi viðkomandi lands, þar með talið fyrirkomulag skatta og lagaumgerð um erlenda fjárfestingu. Það eru atriði sem verið er að þrýsta á að verði löguð og ég veit að hæstv. fjármálaráðherra hefur gert það í sínu ráðuneyti. Samtök gagnavera hafa verið að þrýsta á þennan þátt, hann er einn af því sem skoðað er í þessu sambandi.

Önnur atriði eru lagaumhverfi hvað varðar réttindavernd og slíkt. Við höfum heyrt tölur úr iðnaðinum um að um 1/6 af þeim sem geyma gögn sín á Íslandi og kaupa sér vinnslugetu séu aðilar sem horfi til Íslands vegna öflugs lagaumhverfis, sem er þó ekki enn fyrir hendi. Við þurfum að fara að vinna í því, það er klárlega stór hluti af því sem við þurfum að hugsa til og passa upp á. Við verðum að gæta þess að heltast ekki úr lestinni hvað þetta varðar en tækifærin eru klárlega enn til staðar. Við erum vel staðsett varðandi flesta þætti. Það þarf aðeins að laga viðskiptaumhverfið, það þarf að halda áfram með þingsályktunartillöguna um vernd tjáningar- og upplýsingafrelsis, það þarf að halda áfram með vinnuna sem unnin var í iðnaðarráðuneytinu um stefnu ríkis og sveitarfélaga um upplýsingasamfélagið. Við erum alveg á réttri braut, við þurfum bara að leggja svolítið meiri áherslu á þetta af því að það eru ekki mörg flókin atriði sem þarf að gera til að skapa gríðarlegan ávinning fyrir okkur. Við erum því engan veginn búin að missa af lestinni, við erum aðeins búin að heltast úr henni en tækifærin eru sannarlega til staðar og allt sem við leggjum í þetta verkefni mun skila sér margfalt til baka.