144. löggjafarþing — 34. fundur,  18. nóv. 2014.

bætt starfsumhverfi erlendra sérfræðinga.

123. mál
[15:00]
Horfa

Flm. (Guðmundur Steingrímsson) (Bf):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir máli sem er tillaga til þingsályktunar um bætt starfsumhverfi erlendra sérfræðinga. Það er þingflokkur Bjartrar framtíðar sem leggur tillöguna fram. Málið snýst í stuttu máli um að fela iðnaðar- og viðskiptaráðherra að skipa þriggja manna starfshóp sem vinni tillögur að bættu starfsumhverfi erlendra sérfræðinga á Íslandi og það verði útfært í tillögum hópsins hvernig laða megi að erlenda sérfræðinga með tímabundnum ívilnunum, t.d. í skattkerfinu, og með því að gera afgreiðslu á umsóknum þeirra um atvinnu- og dvalarleyfi einfaldari og skjótari. Einnig er lagt til að horft verði til annarra þátta, svo sem hvernig efla megi alþjóðlegt nám fyrir börn erlendra sérfræðinga hér á landi og fleira. Gert er ráð fyrir að hópurinn skili ráðherra tillögum að lagabreytingum og breytingum á reglugerðum eigi síðar en 1. janúar 2016.

Að okkar mati er þetta mikið hagsmunamál fyrir fyrirtæki á Íslandi, einkum þau sem vinna að rannsóknum og nýsköpun og geta skilað þjóðarbúskapnum miklum auði ef vel tekst til. Þetta er ein lífæðin sem svona fyrirtæki þurfa, þ.e. gott aðgengi að erlendum sérfræðingum og að hægt sé að laða þá til starfa í þessum fyrirtækjum með einhverjum hætti.

Við erum sem þjóð og íslensk fyrirtæki í alþjóðlegri samkeppni um erlenda sérfræðinga á íslenskum vinnumarkaði. Löggjafir Norðurlandanna gera allar ráð fyrir einhvers konar tímabundnum ívilnunum til erlendra sérfræðinga sem þar starfa í fyrirtækjum.

Þetta er einfaldlega hugsað sem hvatakerfi til þess að erlendir sérfræðingar með dýrmæta sérþekkingu komi til að vinna í þarlendu atvinnulífi. Í Noregi eru 15% tekna erlendra sérfræðinga undanþegin skatti í tvö ár. Í Danmörku eru 25% tekjuskattur í fimm ár. Í Finnlandi er 35% tekjuskattur í fjögur ár og í Svíþjóð eru 25% tekna undanþegin skatti í þrjú ár fyrir starfsfólk af þessu tagi.

Á Íslandi er enginn hvati.

Ívilnanakerfi er samt Íslendingum ekki alveg óþekkt vegna þess að nú liggur til dæmis fyrir þinginu frumvarp til laga um ívilnanir fyrir erlendar fjárfestingar, fyrir fyrirtæki sem vilja koma hingað til lands og sérstakir ívilnunarsamningar hafa verið gerðir við erlenda stóriðju. Þeir fela í sér ýmiss konar styttingu á ferlum, ýmiss konar afslátt af gjöldum, ýmiss konar skattaívilnanir. Hér erum við í rauninni bara að segja að það verður líka að horfa til þessara þátta, að erlendir sérfræðingar sem eru mjög mikilvægir litlum fyrirtækjum ekki síst, fyrirtækjum sem eru að byrja og geta orðið mjög mikilvæg og verðmæt fyrirtæki. Hið sama getum við gert til þess að laða að slíkt vinnuafl alveg eins og við viljum laða að erlend fyrirtæki, við getum notað til þess hvatakerfi, ívilnanir.

Mér er kunnugt um að einhvers konar vinna hefur farið fram við að reyna að smíða einhvers konar hvatakerfi fyrir erlenda sérfræðinga. Ég fagna því. Ég geri þá ráð fyrir að þegar þetta verður tekið fyrir í nefnd muni menn komast að því hversu langt sú vinna er komin innan Stjórnarráðsins og að þá sé hægt, ef þess þarf, að sníða tillöguna að þeirri vinnu. Ef vinnan er stutt á veg komin væri hægt að samþykkja að stofna svona starfshóp og ganga í þetta verkefni.

Málið snýr líka að umsóknum um dvalarleyfi og atvinnuleyfi. Eins og Viðskiptaráð Íslands benti á í ágætri samantekt um þetta mál eru umsóknir um dvalar- og atvinnuleyfi fyrir erlenda sérfræðinga og í rauninni aðra allt of þunglamalegar hér á landi. Við stöndum okkur mjög illa hvað þetta varðar í samkeppninni við nágrannaþjóðir okkar um slíkt vinnuafl, erlenda sérfræðinga. Það tekur fjóra til sjö mánuði fyrir erlendan sérfræðing að fá dvalar- og atvinnuleyfi hér á landi. Samkvæmt úttekt Viðskiptaráðs tekur um 12 vikur fyrir Útlendingastofnun að afgreiða umsókn um dvalarleyfi, sem er bara einn þáttur af mörgum.

Það má einfalda mjög. Um er að ræða tvær löggjafir og það þarf að samræma þær. Samkvæmt annarri fá menn atvinnuleyfi og samkvæmt hinni löggjöfinni fá menn dvalarleyfi. Þetta er flókið og erfitt ferli og getur orðið til þess að draga úr löngun erlendra sérfræðinga til að koma hingað og starfa. Það ætti að vera auðvelt að laga þetta ef vilji er fyrir hendi.

Svo þarf líka að horfa til annarra þátta eins og ég nefndi áðan, að erlendir sérfræðingar geti komið hingað með fjölskyldur sínar og alþjóðlegt nám þarf að vera í boði fyrir börn erlendra sérfræðinga, gott aðgengi að upplýsingum um íslenskt samfélag og þar fram eftir götunum.

Við leggjum sem sagt til að stofnaður verði starfshópur sem fari í þetta verkefni. Það er mjög mikilvægt fyrir rannsóknir og nýsköpun, mikilvægt til þess að efla fjölbreytni í atvinnulífinu, mikilvægt til þess að ný fyrirtæki hér á landi fái vaxið og dafnað og þau sjái hag sinn í því að hafa starfsstöðvar sínar hér en ekki flytja til útlanda af því að þar sé auðveldara fyrir þau að ráða erlenda sérfræðinga.

Það er sérstaklega aðkallandi fyrir Íslendinga að skapa hvatakerfi af þessu tagi vegna þess að við erum aðeins aftar á merinni en nágrannaþjóðirnar vegna ýmissa þátta eins og gjaldeyrishafta, sem eru mjög fráhrindandi fyrir erlenda sérfræðinga og erlend fyrirtæki. Svo geta menn auðvitað sett fyrir sig þætti á Íslandi eins og veðurfar, þó að tíðin sé góð núna, og að þetta er afskekkt land og tungumálið mörgum illskiljanlegt þó að það sé fagurt.

Ef við viljum grípa til aðgerða til að auka fjölbreytni í atvinnulífinu til að styðja við lítil og meðalstór fyrirtæki, til að styðja við rannsóknir og nýsköpun, er mikilvægt að gera eins og nágrannaþjóðirnar hafa gert og koma á hvatakerfi á Íslandi með ívilnunum til að ráða erlenda sérfræðinga til starfa á íslenskum vinnumarkaði og gera umsóknir þeirra um dvalar- og atvinnuleyfi einfaldari og þar fram eftir götunum.