144. löggjafarþing — 34. fundur,  18. nóv. 2014.

skattafsláttur vegna kostnaðar við ferðir til og frá vinnu.

109. mál
[15:11]
Horfa

Flm. (Elsa Lára Arnardóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir þingsályktunartillögu um skattafslátt vegna kostnaðar við ferðir til og frá vinnu. Þingsályktunartillagan fjallar um að fela fjármála- og efnahagsráðherra að undirbúa og leggja fram á Alþingi frumvarp til laga um breytingar á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, með síðari breytingum, sem feli í sér heimild ráðherra til að útfæra og setja reglur um að þeim skattskyldu mönnum sem greiða þurfa háan kostnað vegna ferða til og frá vinnu innan tiltekinna og skilgreindra atvinnusvæða innan lands verði veittur afsláttur af tekjuskatti. Í framhaldinu útfæri ráðherra og setji slíkar reglur.

Það eru nokkrir hv. þingmenn Framsóknarflokksins sem eru flutningsmenn þessarar tillögu, það eru sá hv. þingmaður sem hér stendur, Jóhanna María Sigmundsdóttir, Ásmundur Einar Daðason, Silja Dögg Gunnarsdóttir og Haraldur Einarsson.

Frú forseti. Í greinargerð með þingsályktunartillögunni kemur fram að tillaga sama efnis hafi áður verið lögð fram, þ.e. á 140. löggjafarþingi og 141. löggjafarþingi. Flutningsmaður tillögunnar var þáverandi hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson. Tillöguna endurflutti sá hv. þingmaður sem hér stendur á 143. löggjafarþingi. Tillagan er nú að nýju flutt óbreytt.

Í greinargerð kemur fram að síðustu ár og áratugi hafa þéttbýliskjarnar stækkað og víða hafa samgöngur batnað. Samhliða því hafa miklar breytingar orðið á þróun byggða- og atvinnusvæða. Fólk, jafnt í skilgreindu þéttbýli sem og í dreifbýli, hefur í síauknum mæli leitað í störf í nágrannabæjum eða sveitarfélögum þannig að skilgreiningar og hugmyndir um atvinnusvæði hafa verið að breytast. Sú þróun hefur leitt af sér sífellt stækkandi atvinnusvæði og lengri akstur og ferðir vegna vinnu.

Þróunin er jákvæð og styrkir byggðir landsins en stækkandi atvinnusvæðum og ferðum fólks langar leiðir í og úr vinnu fylgja einnig vandamál. Það er meðal annars hár eldsneytiskostnaður, því eldsneytisverð á Íslandi hefur sjaldan verið jafn hátt og undanfarin missiri. Nauðsynlegt er að unnið sé að því að auka vægi almenningssamgangna á hverju atvinnusvæði fyrir sig en þar er víða pottur brotinn. Á sumum atvinnusvæðum er engum almenningssamgöngum til að dreifa og yfir langan veg að fara til og frá vinnu. Það er því tillaga flutningsmanna að ráðherra verði falið að undirbúa og leggja fram á Alþingi frumvarp til laga um breytingu á tekjuskattslögum sem feli í sér heimild ráðherra til að setja reglur um að þeim skattskyldu mönnum sem greiða þurfa háan kostnað vegna ferða til og frá vinnu innan tiltekinna og skilgreindra atvinnusvæða verði veittur afsláttur af tekjuskatti. Fái frumvarpið lagagildi útfæri ráðherrann og setji slíkar reglur.

Sú leið sem verið er að ræða í þessari þingsályktunartillögu er vel þekkt í þeim löndum sem við berum okkur helst saman við. Hér á eftir ætla ég að rekja örfá dæmi um útfærslu á ívilnunarkerfi af þessu tagi í Danmörku, Svíþjóð og Noregi.

Í Danmörku geta launþegar fengið sérstakan skattafslátt ef ákveðin skilyrði eru til staðar. Reglurnar eru þær að ef vinnustaður launþega er í meira en 12 km fjarlægð frá heimili, sem sagt ef eknir eru meira en 24 km til og frá vinnu á hverjum vinnudegi, á viðkomandi rétt á skattafslætti vegna aksturs í og úr vinnu. Þeir sem búa á skilgreindum jaðarsvæðum fá 2,1 dkr. fyrir hvern kílómetra sem ekinn er umfram þá 24 km á hverjum vinnudegi. Í Danmörku er taxtinn sá sami fyrir hvern kílómetra umfram 120 km. Á heimasíðu ríkisskattstjórans í Danmörku má sjá hvaða svæði eru skilgreind sem jaðarsvæði. Jaðarsvæðin eru samkvæmt skilgreiningunni ákveðin út frá ákveðnum þáttum eins og til dæmis lágum tekjum, þar sem tekjur á hvern íbúa fara ekki yfir 90% af landsmeðaltali. Einnig er litið til íbúaþróunar við mat á skilgreiningu á hvað jaðarsvæði eru og hvað eru ekki jaðarsvæði.

Ef við færum okkur yfir til Svíþjóðar er veittur skattafsláttur samkvæmt eftirfarandi skilyrðum: Það þurfa að minnsta kosti að vera 5 km á milli heimilis og vinnustaðar. Launþegi þarf að spara samanlagt tvær klukkustundir í ferðatíma við að nota bíl frekar en opinber samgöngutæki eins og til dæmis lest eða strætó. Ef bíllinn er notaður í minnst 60 daga á ári og 300 mílur eknar í tengslum við starfið er einungis veittur afsláttur fyrir þá daga sem ekið er vegna starfsins. Ef eknir eru minnst 160 dagar á ári og minnst 300 mílur í tengslum við starf er afslátturinn veittur fyrir fjölda daga sem ekið hefur verið í og úr vinnu. Skattafsláttur er einungis veittur fyrir útgjöld umfram 10.000 skr. Ef almenningssamgöngur eru ekki mögulegar í minnst 2 km fjarlægð á milli heimilis og vinnu er veittur skattafsláttur fyrir alla leiðina í bíl. Taxtinn er 18,50 skr. fyrir hverja mílu sem ekin er. Í slíkum tilvikum er skattafslátturinn einungis gefinn fyrir upphæð umfram 10.000 skr.

Ég ætla að ljúka þessum samanburði á því að ræða um Noreg. Í Noregi er svipað fyrirkomulag og í Danmörku og Svíþjóð þegar kemur að skattafslætti vegna aksturs í og úr vinnu. Greitt er fyrir unna vinnudaga, en veikindadagar og annað slíkt kemur til frádráttar. Taxtinn fyrir árið 2011 voru 0,7 nkr. fyrir hvern kílómetra að frádregnum neðri mörkum sem eru 13.950 nkr., sem var að vísu taxtinn fyrir árið 2012, en við fundum ekki nýrri tölur við gerð þingsályktunartillögunnar. Launþegar búsettir í Noregi sem sækja vinnu í öðru landi eiga rétt á afslætti vegna aukaútgjalda, þ.e. vegna matar, húsnæðis og heimsóknarferða. Lögheimili þarf að vera skráð í Noregi og launþegi greiðir skatt til viðkomandi sveitar- eða bæjarfélags. Einnig þarf hann að þiggja laun samkvæmt launasamningi. Gerðar eru kröfur um fjölda ferða milli vinnustaðar og heimilis. Kröfurnar eru ólíkar eftir því hvort viðkomandi er fjölskyldumaður eða ekki.

Ég legg til að málinu verði vísað til þinglegrar meðferðar í efnahags- og viðskiptanefnd að umræðu lokinni.