144. löggjafarþing — 34. fundur,  18. nóv. 2014.

vörugjald.

36. mál
[15:42]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek heils hugar undir margt af því sem hefur komið fram hjá framsögumanni og hv. flutningsmanni. Mér finnst reyndar dálítið seint í rassinn gripið að hv. þingmaður skuli koma með þessa tillögu núna. Ég hefði viljað sjá hann koma með tillöguna þegar hann var fjármálaráðherra á síðasta kjörtímabili, þá hefði ég fagnað henni.

Ég hef reyndar aldrei skilið þennan mun, þessi vörugjöld á jarðstreng, eins og kom ágætlega fram hjá hv. þingmanni. Ég hef ekki skilið þá mismunun, sér í lagi þar sem það hefur verið vilji flestra að koma sem flestum strengjum í jörð. En að mörgu leyti fagna ég því að hv. þingmaður skuli vera sammála niðurfellingu einhverra vörugjalda, þó að hann sé ekki alveg eins stórtækur og fjármálaráðherrann í dag, að hann komi með tillögu um að fella vörugjöldin í einu lagi af öllum vörum, því að þessi mismunun er ekki bara í jarðstrengjum. Það má víða bera niður og slík mismunun er ansi víða og þess vegna spyr ég hv. þingmann: Getum við ekki sameinast um að einfalda og eyða allri mismunun, hvar sem hún er, hvort sem er í jarðstrengjum eða öðru?