144. löggjafarþing — 34. fundur,  18. nóv. 2014.

vörugjald.

36. mál
[15:44]
Horfa

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi þá spurningu af hverju þetta hafi ekki verið gert fyrir löngu get ég bara svarað því fyrir mig að mér var þessi mismunur ekki ljós meðan ég var t.d. fjármálaráðherra og hafði með málefni vörugjalda og skattamál að gera. Það er þannig að seint á árinu 2012 skipaði ég starfshóp til að fara ofan í þessi mál sem skilaði svo af sér skýrslu snemma á árinu 2013, reyndar skömmu fyrir þinglok, þar sem vakin var athygli á þessum mismun og lagt til að hann yrði látinn hverfa. Það hefur síðan verið í höndum annarra að fylgja eftir því starfi og það hefur m.a. verið gert með þeirri tillögu sem nú er komin hér og er afrakstur af þeirri vinnu sem hófst á fyrra kjörtímabili. Hvers vegna fjármálaráðherra eða aðrir ráðherrar beittu sér ekki strax á árinu 2013 fyrir því að afnema vörugjaldið veit ég ekki. Ég grennslaðist fyrir um það og lagði svo fram frumvarp á síðasta vetri, eins og ég gerði grein fyrir í framsöguræðu minni, sem náði ekki afgreiðslu í önnum rétt fyrir þinglok. Ég vona að ég hafi ekki verið látinn gjalda þess sérstaklega að ég var flutningsmaður málsins. Ég hef fyrir mitt leyti reynt að sinna þessu frá og með því að mér varð þessi munur ljós. Það er best að segja hverja sögu eins og hún er, ég hafði ekki áttað mig á því að í skattalegu tilliti væri þarna beinlínis um mismunun að ræða.

Alla vega í þessu tilviki finnst mér einboðið að hún eigi að hverfa. Ef eitthvað er mætti frekar færa rök fyrir því að þetta ætti að snúa öfugt, ef stjórnvöld vildu sérstaklega ívilna jarðstrengjum er ekkert sem bannar það.

Varðandi það að vera stórtækari í þessum efnum og fella niður vörugjöld í heild er mín afstaða til þess, þótt það sé annað mál og liggi fyrir þinginu á öðrum stað, að að mörgu leyti séu kostir því samfara að fella niður almenn vörugjöld en ég er algerlega andvígur því að fella niður sykurskattinn. Það finnst mér glórulaus aðgerð, bæði frá fjárhagslegum sjónarhóli ríkisins og ekki síður út af lýðheilsusjónarmiðum.