144. löggjafarþing — 34. fundur,  18. nóv. 2014.

bætt hljóðvist og aðgerðir til að draga úr erilshávaða í kennsluhúsnæði.

209. mál
[15:47]
Horfa

Flm. (Brynhildur Pétursdóttir) (Bf):

Virðulegi forseti. Ég flyt hérna tillögu til þingsályktunar um bætta hljóðvist og aðgerðir til að draga úr erilshávaða í kennsluhúsnæði. Flutningsmenn með mér á tillögunni eru hv. þingmenn Páll Valur Björnsson, Bjarkey Gunnarsdóttir, Svandís Svavarsdóttir, Elsa Lára Arnardóttir, Líneik Anna Sævarsdóttir, Guðbjartur Hannesson, Oddný G. Harðardóttir og Jón Þór Ólafsson.

Tillagan hljóðar svo:

Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa starfshóp sem fái það verkefni að tryggja að erilshávaði í kennsluhúsnæði skaði ekki rödd og heyrn nemenda, kennara og starfsmanna og hafi ekki neikvæð áhrif á líðan og námsfærni nemenda. Í þeim tilgangi verði hópnum falið að leggja til nauðsynlegar úrbætur og jafnvel gera tillögur að laga- og reglugerðarbreytingum sé þess þörf. Starfshópurinn verði skipaður einum fulltrúa mennta- og menningarmálaráðuneytis, einum fulltrúa umhverfis- og auðlindaráðuneytis, einum fulltrúa velferðarráðuneytis, einum fulltrúa tilnefndum af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, einum fulltrúa tilnefndum af samtökunum Heimili og skóli, einum fulltrúa tilnefndum af umboðsmanni barna, einum fulltrúa tilnefndum af Kennarasambandi Íslands og einum fulltrúa tilnefndum af Heyrnar- og talmeinastöð Íslands. Starfshópurinn hafi samráð við þá hagsmunaaðila sem málið varðar. Niðurstöður hópsins verði kynntar Alþingi fyrir árslok 2015.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem sambærileg tillaga er flutt því að tillaga sama efnis var lögð fram á 135. löggjafarþingi, aftur á 136. löggjafarþingi og eins á 141. löggjafarþingi.

Ástæðan fyrir því að við flutningsmenn ákváðum að leggja þessa tillögu fram aftur er sú að margar rannsóknir hafa sýnt fram á að hávaði geti haft neikvæð áhrif á líðan og námsfærni barna og unglinga, svo sem lesskilning og málþroska. Er þá bæði horft til hávaða sem kemur utan frá, t.d. frá umferð eða framkvæmdum, og þess hávaða sem myndast inni í kennslurými og er kallaður erilshávaði. Yfirvöld verða að tryggja að börnum sé boðið upp á góða vinnuaðstöðu þar sem hávaði er undir þeim mörkum að þau hljóti skaða af og geti stundað nám með sem bestum árangri.

Í bæklingnum Hljóðvistarkröfur í umhverfi barna – Leiðbeiningar, sem Umhverfisstofnun gaf út 2012, segir orðrétt:

„Hávaði getur haft skaðleg áhrif bæði á heyrn og aðra lífeðlisfræðilega, vitsmunalega og atferlislega þætti hjá börnum. Áhrif á heyrn geta komið fram sem minnkuð eða skert heyrn, minna þol fyrir hávaða eða suð fyrir eyrum (tinnitus). Hávaði getur einnig haft neikvæð áhrif á náms- og tungumálagetu barns, drifkraft og einbeitingu, auk þess að minnisgeta getur minnkað sem og hæfni til að takast á við flókin verkefni. Hávaði getur vakið upp streituviðbrögð hjá börnum sem m.a. koma fram sem aukinn hjartsláttur og hormónaviðbragð, auk þess sem hávaði getur truflað svefnmynstur og hindrað þannig nauðsynlega orkuuppsöfnun líkama og heila. Óbeint getur hávaði haft neikvæð áhrif á röddina, því um leið og barn neyðist til að tala hærra til að yfirgnæfa hávaða getur það leitt til hæsis og hnúta á raddböndum.

Evrópskar rannsóknir hafa sýnt fram á að langvarandi hávaði hefur neikvæð áhrif á heilsu og frammistöðu barna. Sumum hávaðauppsprettum er ekki hægt að komast hjá, en hægt er að koma í veg fyrir eða minnka neikvæð áhrif af þeirra völdum með góðu skipulagi, hönnun og úrbótum.“

Ekki þarf því að draga í efa að hávaði í umhverfi fólks getur haft alvarlegar heilsufarslegar afleiðingar og er sérstaklega mikilvægt að hlífa börnum við hávaða eins og kostur er. Sé einnig minnsti grunur um að hávaði geti haft áhrif á námsfærni barna ber að taka slíkt mjög alvarlega. Börn og unglingar eiga rétt á því að þeim séu tryggðar eins góðar vinnuaðstæður og völ er á. Í rauninni eigum við ekki að gera minni kröfur til þeirra vinnuaðstæðna sem við bjóðum börnunum okkar en við gerum til vinnuaðstæðna okkar. Ýmislegt bendir til þess að hávaði í skólum, leikskólum sé víða yfir æskilegum mörkum. Við því þarf að bregðast.

Önnur hlið á þessum vanda snýr að röddinni og þeim skaða sem hún getur hæglega orðið fyrir við þær aðstæður sem einkenna jafnan hljóðvist í kennsluhúsnæði. Þá er jafnvel sérstaklega horft til leikfimiskennara. Líta ber á röddina sem atvinnutæki kennara og huga að henni út frá vinnuverndarsjónarmiðum. Í því felast ekki aðeins aðgerðir til að draga úr erilshávaða í skólabyggingum heldur þarf einnig að huga að réttri raddbeitingu sem hluta af kennaranámi.

Margir hafa beitt sér í þessum málum undanfarið. Nýlega kom út bæklingur sem heitir Kennsluumhverfi – hlúum að rödd og hlustun, sem að standa Kennarasamband Íslands, Mannvirkjastofnun, Vinnueftirlitið og Samband íslenskra sveitarfélaga. Í þessum bæklingi á bls. 31 er einmitt verið að tala um hávaða og afleiðingar sem hann getur haft. Ég ætla að vitna í þennan bækling:

„Hávaði í skólum, sérstaklega í íþróttasal og á leikskólum hefur farið upp og yfir hættumörk fyrir heyrn (mældur 80 dB meðalhávaði í 8 stundir). Hávaðatoppar sem eru 110 dB og hærri valda heyrnarskaða. Slíkir toppar hafa mælst t.d. í leikskólum og við íþróttakennslu. Dvöl í hávaða getur eyðilagt viðkvæmt kerfi í innra eyra og valdið ólæknandi eyrnasuði. Þetta gildir að sjálfsögðu jafnt um börn sem fullorðna. Dvíni hlustunarlöngun og hlustunargeta hefur það bein áhrif á athygli og einbeitingu. Hávaði dregur úr einbeitingu og skerðir athygli.“

Hér er vísað í erlendar rannsóknir: „Rannsóknir sýna að börn sem dvelja í hávaða eiga í erfiðleikum með orðaminni (skammtímaminni á orð), setningaminni og upprifjunarminni. Það hefur truflandi áhrif á málþroska ef börn heyra ekki rétt það sem sagt er og ná ekki að festa sér í minni talhljóð, orð eða setningar. Rannsóknir hafa sýnt að hávaði hefur neikvæð áhrif á getu til að skilja mál og að hávaði truflar meiri skilning barna en fullorðinna á mæltu máli.“

Hér er vitnað í aðra rannsókn: „Rannsóknir hafa sýnt að hávaði dregur t.d. úr lesskilningi. Rannsókn sýndi að börn sem dvöldu í hávaða áttu erfiðara með að mynda tengsl við félaga og kennara. Rannsóknir sýna að börn sem sofa við hávaða hvílast ekki til gagns. Hávaði er streituvaldandi og hefur áhrif á lífsgæði.“

Ég held að ég sé búin að leggja nógu góða áherslu á mál mitt hér, hávaði er eitthvað sem við eigum að taka virkilega alvarlega og við verðum að gera þá kröfu að börn búi við þannig vinnuaðstæður að hávaði sé ekki truflandi og hafi ekki heilsuspillandi áhrif. Okkur verður tíðrætt um að námsárangur íslenskra barna sé eitthvað til að hafa áhyggjur af og kannski sérstaklega lesskilningurinn sem hefur mælst lítill, þá einkum hjá drengjum. Við getum ekki látið hjá líða að taka það alvarlega og að hávaði í leikskólum og grunnskólum, jafnvel menntaskólum, geti haft neikvæð áhrif á námshæfni barna og sé kannski að einhverju leyti orsakavaldur þessa námsárangurs sem við mundum vilja sjá svo miklu betri.

Það var Þuríður Backman sem flutti þetta mál þrisvar sinnum. Við byggjum að miklu leyti á vinnu hennar. Málið fór held ég aldrei í umsagnarferli. Mér þykir því mjög mikilvægt að þetta mál komist í umsagnarferli og auðvitað helst að það verði samþykkt.