144. löggjafarþing — 34. fundur,  18. nóv. 2014.

mat á heildarhagsmunum vegna hvalveiða.

34. mál
[16:07]
Horfa

Flm. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um mat á heildarhagsmunum vegna hvalveiða.

Í september sl. sendu öll ríki Evrópusambandsins ásamt Bandaríkjunum, Ástralíu, Brasilíu, Ísrael, Mexíkó, Mónakó og Nýja-Sjálandi ríkisstjórn Íslands formlegt erindi þar sem hvalveiðum Íslendinga var harðlega mótmælt. Ríkin setja sig alfarið upp á móti hvalveiðum Íslendinga og þá er verslun Íslendinga með hrefnu og langreyði harðlega gagnrýnt og minnt á að báðar tegundir falli undir ákvæði CITES-samningsins sem snýr að verslun með dýra- og plöntuafurðir. Biðluðu ríkin til íslenskra stjórnvalda að fara að ráðleggingum Alþjóðahvalveiðiráðsins og hætta veiðum og verslun með hval.

Nokkur af ríkjunum fylgdu eftir áskoruninni með því að senda sendiherra sína á fund utanríkisráðherra til að afhenda honum áskorunina en hann sá sér ekki fært að taka á móti henni og sendifulltrúunum. Þá hefur forseti Bandaríkjanna, Barak Obama, tvívegis virkjað hina svokölluðu Pelly-viðauka sem veitir forsetanum rétt til að ákveða þvingunaraðgerðir af ýmsu tagi. Hefur forsetinn fyrirskipað diplómatískar refsiaðgerðir sem gera samskipti við bandarísk stjórnvöld erfiðari en ella. Til dæmis hélt John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, stóra ráðstefnu um málefni hafsins í Washington í júní á þessu ári þar sem Íslendingum var ekki boðið. Það er alvarlegt mál fyrir þjóð sem er jafn efnahagslega háð hafinu og Íslendingar að vera ekki boðin á slíka ráðstefnu.

Hvað sem stjórnmálamönnum á Íslandi kann að þykja um þennan þrýsting erlendra ríkja þá tel ég vægast sagt óábyrgt að gefa honum ekki gaum. Ég legg því fram öðru sinni, ásamt Svandísi Svavarsdóttur, Björt Ólafsdóttur, Birgittu Jónsdóttur, Helga Hrafni Gunnarssyni, Katrínu Júlíusdóttur, Lilju Rafneyju Magnúsdóttur, Óttari Proppé og Össuri Skarphéðinssyni, þingsályktunartillögu um mat á hagsmunum Íslands vegna hvalveiða í íslenskri lögsögu.

Verði hún samþykkt mun Alþingi fela fjármála- og efnahagsráðherra að láta meta efnahagslega og viðskiptalega hagsmuni af hvalveiðum, þar með talið verðmæti útflutnings og þróun markaðar fyrir hvalkjöt, bæði hér heima og í Japan. Jafnframt verði metinn kostnaður við kynningu af hálfu stjórnvalda vegna hvalveiðistefnunnar og leitað álits fræðimanna, hagsmunaaðila og viðeigandi félagasamtaka um áhrif hvalveiðistefnu stjórnvalda á afkomu ferðaþjónustu og sjávarútvegs, áhrif hvalveiða á stöðu Íslands á alþjóðavettvangi og á samskipti við einstök ríki, einkum Bandaríkin. Ráðherra skili Alþingi skýrslu um hagsmunamatið í síðasta lagi fyrir lok mars 2015.

Það fylgir nokkuð ítarleg greinargerð með þessari tillögu sem ég ætla ekki að fara sérstaklega yfir hér og tel mig hafa fært ágæt rök fyrir því að það er mjög mikilvægt að þessi tillaga fái skjóta afgreiðslu og að við horfumst í augu við og tökum af skynsemi ákvörðun varðandi hvalveiðistefnu Íslendinga.

Að lokum vil ég leggja til að tillagan verði send til efnahags- og viðskiptanefndar enda kemur fram í tillögunni að verið er að fela fjármála- og efnahagsráðherra að gera hagsmunamat á hvalveiðum.