144. löggjafarþing — 34. fundur,  18. nóv. 2014.

þjóðfáni Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið.

95. mál
[16:12]
Horfa

Flm. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um þjóðfána Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið, nr. 34/1944, með síðari breytingum, um fánatíma. Sú sem hér stendur er 1. flutningsmaður en auk mín flytja málið hv. þingmenn Jóhanna María Sigmundsdóttir, Frosti Sigurjónsson, Karl Garðarsson, Haraldur Einarsson, Þorsteinn Sæmundsson og Ásmundur Einar Daðason.

Í frumvarpinu er lagt til að breyting verði gerð á 7. gr. laganna og orðist svo:

„Með reglugerð skal kveða á um fánadaga. Fána skal ekki draga á stöng fyrr en klukkan sjö að morgni og skal hann ekki vera uppi lengur en til sólarlags og aldrei lengur en til miðnættis. Ef flaggað er við útisamkomu, opinbera athöfn, jarðarför eða minningarathöfn má fáni vera uppi lengur en til sólarlags eða svo lengi sem athöfn varir, en þó aldrei lengur en til miðnættis. Þrátt fyrir ákvæði 2. og 3. mgr. má fáni vera uppi allan sólarhringinn frá 15. maí til 15. ágúst ár hvert eða á öðrum tímum ef hann er flóðlýstur. Nú er fáni flóðlýstur og skal þá gætt að áhrifum lýsingarinnar á nánasta umhverfi.“

Lagt er til að lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða:

„Í sex mánuði eftir samþykkt laga þessara skal ráðuneytið kynna nýjar reglur um notkun þjóðfánans með það að markmiði að auka notkun hans.“

Frumvarp þetta var áður flutt á 143. þingi.

Lög um þjóðfána Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið hafa litlum breytingum tekið frá samþykkt þeirra 1944. Eina efnislega breytingin sem gerð hefur verið á lögunum var með lögum nr. 67/1998, sem snerist um notkun fánans. Frumvarpið sem varð að þeim lögum var undirbúið af nefnd sem falið var að endurskoða lögin, einkum ákvæði 12. gr.

Samkvæmt 7. gr. laga um þjóðfána Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið skal í reglugerð kveða á um fánadaga og hve lengi halda megi fána við hún. Í 3. gr. forsetaúrskurðar nr. 5/ 1991, um fánadaga og fánatíma, er kveðið á um að fána skuli ekki draga á stöng fyrr en klukkan sjö að morgni og að jafnaði skuli hann ekki vera lengur uppi en til sólarlags og aldrei lengur en til miðnættis. Þá er sérstakt ákvæði um útisamkomur, opinberar athafnir o.fl. þar sem mælt er fyrir um að fáni megi vera uppi lengur en til sólarlags eða svo lengi sem athöfn vari en þó aldrei lengur en til miðnættis.

Ég ætla nú ekki að fara hér yfir alla greinargerðina, herra forseti, heldur grípa þar aðeins niður til skýringar.

Tilgangurinn með þessu frumvarpi er að auka almenna notkun á fánanum. Þá þyrfti fólk ekki að hafa áhyggjur af því að brjóta fánalög yfir sumartímann þegar sólin skín nánast allan sólarhringinn. Þá gæti fólk haft fánann uppi eins og við sumarbústaði og víðar þegar veður er fallegt og fáninn nýtur sín sem best.

Ég ætla aðeins að rifja upp sögu þessa máls. Það á sér mjög langan aðdraganda og hefur margsinnis farið fyrir þingið í ýmsum myndum á liðnum árum og náð að þroskast og þróast. Á 138. löggjafarþingi var lögð fram tillaga til þingsályktunar um að fela forsætisráðherra að setja reglugerð um notkun fánans í því skyni að rýmka þann tíma sem fáni má vera uppi. Á 139. löggjafarþingi var sambærileg tillaga til þingsályktunar lögð fram. Um hana bárust umsagnir frá ýmsum aðilum. Festir sem skiluðu inn umsögn fögnuðu tillögunni. Komu fram mjög athyglisverðar athugasemdir, svo sem að ganga mætti enn lengra, að afla þyrfti frekari upplýsinga um óskir almennings hvað varðar notkun fánans og að ef til vill þyrfti að setja reglur um ástand og útlit fána þar sem gera mætti ráð fyrir því að fánar slitnuðu með aukinni notkun. Á 140. og 141. löggjafarþingi voru enn lagðar fram tillögur til þingsályktunar sama efnis og á 141. löggjafarþingi var lagt fram frumvarp til laga um breytingu á lögum sem laut að því annars vegar að rýmka fánatímann og hins vegar að auka notkun fánans við markaðssetningu á íslenskum vörum.

Herra forseti. Svo ég komi því nú að var málið varðandi vörumerkingar afgreitt á síðasta þingi með þeim hætti að álit hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar var samþykkt og málinu vísað til ríkisstjórnar þar sem það er nú til afgreiðslu. Ég geri ráð fyrir því að við fáum að sjá frumvarp þess efnis nú á vorþingi.

Varðandi breytingar á fánalögum um fánatíma komu fram áhyggjur fólks af því að fáninn yrði þá að vera í góðu ástandi og það er mjög mikilvægt að hann sé það. Í því sambandi vil ég benda á að lögreglan hefur eftirlit með því hvort fáninn sé rétt notaður og í samræmi við lögin. Ef fáni er upplitaður, slitinn og illa farinn og ekki eins og hann á vera hefur lögreglan heimild til þess að gera slíkan fána upptækan.

Líkt og ég hef nefnt áður er lagt til í frumvarpinu að heimilt verði að hafa fánann uppi allan sólarhringinn, þ.e. þá einnig í skammdeginu, ef hann er flóðlýstur. Ég nefndi áðan að þegar sólar nýtur nánast 24 tíma væri hægt að hugsa sér að fáninn fengi að vera uppi allan sólarhringinn, en þegar dimma tekur er lagt til að fáni megi vera uppi allan sólarhringinn ef hann er flóðlýstur. Mikilvægt er þó að slík lýsing raski ekki nánasta umhverfi. Til hliðsjónar er í greinargerð bent á byggingarreglugerð nr. 112/2012, sem á við um mannvirki og þætti þeirra, samanber 1.1.2. gr. hennar. Ljósmengun er skilgreind í þeirri reglugerð sem þau áhrif á umhverfi sem verða af mikilli og óhóflegri lýsingu í næturmyrkri. Jafnframt er í reglugerðinni kveðið á um að lýsing á lóðum skuli vera þannig að hún valdi hvorki óþarfa ljósmengun, nágrönnum óþægindum né trufli umferð utan lóðar. Þá er í grein 10.4.2. mælt fyrir um að við hönnun á útilýsingu skuli þess gætt að ekki verði um óþarfa ljósmengun að ræða frá flóðlýsingu mannvirkja og enn fremur að tryggja skuli að útilýsingu sé beint að viðeigandi svæði og notaðir séu skermaðir lampar sem varpi ljósi niður og valdi síður glýju og næturbjarma.

Herra forseti. Augljóst er að þetta allt úthugsað og þess háttar lýsing gæti komið að miklu gagni til þess að auka nýtingu og sýnileika íslenska þjóðfánans en hafa ber í huga að það raski ekki umhverfinu og trufli fólk ekki í daglegum störfum.

Í greinargerð er vísað í reglur á Norðurlöndunum. Svo virðist sem íslensku reglurnar séu nokkuð rýmri en annars staðar á Norðurlöndunum. Ef við horfum hins vegar til Bandaríkjanna er meginreglan þar sú að fáninn sé við hún frá sólarupprás til sólarlags og við sérstök tilefni má hafa hann uppi allan sólarhringinn svo fremi að hann sé upplýstur. Svipað á við í Bretlandi þar sem fáninn má vera uppi frá sólarupprás til sólarlags. Hann má einnig vera uppi eftir myrkur ef hann er upplýstur.

Það er skoðun mín að ef við mundum breyta lögunum á þann hátt og gefa fólki það svigrúm að hafa fánann uppi lengur en nú er leyfilegt tel ég að sýnileikinn mundi tvímælalaust aukast og er það af hinu góða að mínu mati. Ég sé fyrir mér að það væri gott ef maður sæi oftar fána við hún t.d. við ferðaþjónustufyrirtæki og stofnanir og annað, opinberar stofnanir.

Mig langar, með leyfi forseta, að vitna í umsagnir sem bárust á síðasta þingi varðandi fánatímann. Hér er ég með umsögn frá Samtökum ferðaþjónustunnar. Þau fagna framkominni tillögu og taka undir nauðsyn þess að rýmka tíma þann sem fáninn má vera við hún.

Einnig er hér umsögn frá Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands. Sambandið fagnar einnig framkomnu frumvarpi með þeim áorðnu breytingum sem gerðar hafa verið á því frá því að það var lagt fram á síðasta þingi. Þar segir, með leyfi forseta:

„ÍSÍ er því fylgjandi að lög um þjóðfána Íslendinga verði rýmkuð en vill þó árétta nauðsyn þess að virðing við þjóðfána Íslendinga verði ekki skert, hvorki í orði né verki.“

Hér er einnig umsögn frá Íslandsstofu. Þar segir, með leyfi forseta:

„Aukin almenn notkun þjóðfánans styrkir ímynd landsins og er til þess fallin að efla þjóðarvitund. Íslandsstofa telur efni frumvarpsins því vera jákvætt og hvetur til jákvæðrar afgreiðslu þess.“

Að lokum langar mig til að koma hér að umsögn frá einstaklingi, Sigurði Jónssyni. Umsögn hans nefndinni á sínum tíma á síðasta þingi. Sigurður bendir á forsetaúrskurð um fánadaga og fánatíma. Þar segir, með leyfi forseta:

„Í þessu sambandi vil ég einnig vekja athygli á forsetaúrskurði um fánadaga og fánatíma, nr. 5/1991, sem skv. alfræðiritinu Wikipedia eru bindandi fyrirmæli af hálfu þjóðhöfðingja, oft forseta eða konungs. Í l. gr. umrædds forsetaúrskurðar stendur m.a.: „Draga skal fána á stöng á húsum opinberra stofnana, sem eru í umsjá valdsmanna eða sérstakra forstöðumanna ríkisins, eftirgreinda daga …““

Síðan kemur upptalning á tólf dögum sem gjarnan eru nefndir opinberir fánadagar.

Sigurður bendir í umsögn sinni einnig á að mikill misbrestur sé á því að farið sé eftir þessu og því borið við að þetta séu oft frídagar og því hljótist kostnaður af því ef ræsa þurfi fólk út til þess að flagga eða taka niður fána. Hann bendir á að það sé ekki gild röksemd, enda mætti hafa uppi sömu rök um margt annað sem gert væri helgidaga sem virka daga. Sigurður leggur til að eftirfarandi texti bætist við bráðabirgðaákvæði frumvarpsins á þskj. 86, með leyfi forseta:

„Auk þess leggi ráðuneytið áherslu á það að þjóðfáninn sé dreginn á stöng við hús opinberra stofnana á opinberum fánadögum skv. forsetaúrskurði um fánadaga og fánatíma.“

Það er skoðun mín, herra forseti, að við ættum að taka þessa ábendingu til umhugsunar og skoðunar. Ég vona að nefndin geri það þegar hún fær málið til sín — ég held svei mér þá í sjöunda sinn.

Þetta mál á sér langa sögu eins og ég hef þegar farið yfir, og það er gott vegna þess að fáninn skiptir okkur máli. Margir bera sterkar tilfinningar til hans og hafa miklar skoðanir á þessu máli. Það kemur mér pínulítið á óvart hversu sterkar skoðanir fólk hefur á fánanum þegar ég ræði þessi mál. Þess vegna er ágætt að málið hafi farið í rólegheitunum í gegnum þingið nokkrum sinnum, aldrei klárast en alltaf fengið umfjöllun og að fólk veltir því fyrir sér. Það eru yfirleitt sömu umsagnaraðilar sem senda inn umsagnir og koma fyrir nefndina þannig að menn eru búnir að margræða málið og velti því sín á milli. Allir eru sammála um að aðalatriðið sé að þjóðfánanum sé sýnd virðing. Ég vona að að þessu sinni verði málið afgreitt út úr nefnd, fari loksins fyrir þingið og verði samþykkt þannig að við getum breytt lögum um fánatíma.