144. löggjafarþing — 35. fundur,  19. nóv. 2014.

störf þingsins.

[15:22]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Ég hef áhyggjur af viðhorfum þeirra sem hér ráða ríkjum til rannsóknarnefnda Alþingis. Kostnaður við þær er sagður óheyrilegur og meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar ákvað að skjóta sendiboðann, eins og sagt er, þegar rannsóknarnefnd skilaði áliti sínu um Íbúðalánasjóð. Skýrslan sýnir að óábyrg lagasetning, vond stjórnsýsla og ófullnægjandi eftirlit kostaði skattgreiðendur landsins á annað hundrað milljarða og jafnvel allt að 270 milljörðum. Kostnaðurinn við skýrsluna nam 250 millj. kr. sem er innan við 0,25% af fjárhagsskaðanum af Íbúðalánasjóði sem borinn er af skattgreiðendum, hvernig sem skaðinn er reiknaður.

Það mun hafa verið í ágúst 2013, virðulegi forseti, sem forsætisnefnd ákvað að ekki yrði ráðist í frekari rannsóknir fyrr en farið hefði verið yfir starf nefndanna og sú yfirferð gæti leitt til tillagna að lagabreytingum. Það eru meira en 15 mánuðir síðan og ekkert hefur heyrst í þeim efnum. Á meðan er ekki sett á laggirnar rannsókn til að skoða einkavæðingu bankanna eins og samþykkt var í þingsal í nóvember 2012, fyrir tveimur árum, forseti.

Það meira en læðist að mér sá grunur að áhugi þeirra sem hér ráða ríkjum sé lítill á því að koma þessum málum í það horf að þeir þykist geta farið að vilja Alþingis og skipað rannsóknarnefnd til að skoða einkavæðingu bankanna. Það meira en læðist að mér sá grunur, virðulegi forseti, að þeim þyki ekki verra að þetta tæki, sem átti að vera áhrifamikið sem forvörn gegn vondum stjórnarháttum og vondri stjórnsýslu, sé í lamasessi.