144. löggjafarþing — 35. fundur,  19. nóv. 2014.

Seðlabanki Íslands.

390. mál
[16:07]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst við erum farin að ræða, í tilefni af þessu máli, um stöðu ríkissjóðs er ágætt að fara aðeins yfir það hvernig staðan er og hefur verið undanfarin ár. Í fyrra, í fjáraukalagavinnunni fyrir 2013, sætti ríkisstjórnin mikilli gagnrýni fyrir að skera niður fyrri útgjaldaáform, en það var nauðsynlegt til þess að ná á endanum betur utan um ríkisfjármálin fyrir það ár. Í ríkisreikningi kom síðan talsvert há tekjufærsla, um það bil jafn há og við erum að ræða í tilefni af þessu máli, sem varð til þess að það var nálægt því að jöfnuður væri í ríkisfjármálunum.

Það er hins vegar ekki rétt hjá hv. þingmanni að skattstofnarnir hafi verið það sterkir að þeir stæðu undir rekstri ríkisins á því ári. Ég mundi áætla að vantað hafi um 3–4% upp á það.