144. löggjafarþing — 35. fundur,  19. nóv. 2014.

Seðlabanki Íslands.

390. mál
[16:11]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni spurninguna sem var reyndar um aðeins annað efni en við erum að ræða nú, en ég vil glaður svara henni, um aflandskrónur og hina gömlu snjóhengju sem enn er í landinu.

Það hefur tekist það ætlunarverk sem lagt var upp með með áætluninni um afnám hafta árið 2011, sem vel að merkja er enn þá eina áætlunin um afnám hafta sem sett hefur verið fram og er eina áætlun hæstv. fjármálaráðherra, hann hefur enga nýja kynnt. Það ætlunarverk hefur tekist að færa aflandsgengi og álandsgengi að hvort öðru, þannig að lítill munur hefur verið þar á í síðustu gjaldeyrisútboðum Seðlabankans. Í áætluninni var lagt upp með það af okkar hálfu að næsta skref yrði álagning á útgönguskatti, vegna þess að frekari útboð mundu væntanlega ekki skila miklum árangri. Það er því eðlilegt að horfa til þess að hann taki nú við.

Það skiptir máli að fara í það næsta skref en það skiptir líka máli að vinna heimavinnuna, stugga við erlendum innstæðueigendum. Ef menn vilja að þeir fari út þarf auðvitað að stugga við þeim. Hæstv. ríkisstjórn hefur klúðrað því að koma á nýju innstæðutryggingakerfi þannig að við erum enn þá í þeirri fráleitu stöðu að erlendir lögaðilar geta verið með innstæður í íslenskum bönkum og notið ríkisábyrgðar á þær innstæður. Af hverju í ósköpunum er ekki búið að afnema ríkisábyrgð á innstæðum fyrir lögaðila?

Í annan stað: Af hverju er ekki búið að koma á innstæðutryggingakerfi sem gefur innlendum sparifjáreigendum tryggingu fyrir því að sparifé þeirra sé jafn vel tryggt hér og í öðrum löndum? Þar með værum við að gera hvort tveggja í senn, koma í veg fyrir óþarfaútflæði fjár, sem mundi veikja íslenska krónu við afnám hafta, en jafnframt reyna að stugga við þeim sem (Forseti hringir.) við viljum að fari úr landi.