144. löggjafarþing — 35. fundur,  19. nóv. 2014.

Seðlabanki Íslands.

390. mál
[16:14]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég er alveg sammála hv. þingmanni um að veruleg hætta er á því að við lendum í þeirri stöðu að afnám hafta hafi neikvæð áhrif á íslenskt efnahagslíf. Það er auðvitað þess vegna sem menn hafa farið sér hægt og viljað hafa vaðið fyrir neðan sig í því ferli.

Það getur alveg gerst að afnám hafta hafi neikvæð áhrif á verðlag, gengið hrynji og þar með gjósi verðbólgan upp og fólk lendi aftur í nýjum forsendubresti með íbúðalán sín. Það getur líka haft gríðarleg neikvæð áhrif á greiðslujöfnun þjóðarinnar og við þurfum að eyða almannafé í að losa menn með peninga út úr landi. Veruleg hætta er á hvoru tveggja. Þess vegna er mikilvægt að vanda sig við afnám hafta. Þess vegna er líka mikilvægt að reyna að efla þverpólitíska samstöðu um afnám hafta. Þar hefur ríkisstjórnin algerlega klúðrað sínu verkefni. Ekkert efnislegt samband hefur verið haft við okkur í stjórnarandstöðunni um þetta (Forseti hringir.) og við lesum bara nýjar og nýjar fréttir frá hirðskáldum ríkisstjórnarinnar og Morgunblaðinu um hvað til standi eða hvað til standi ekki. Við vitum ekkert annað en það sem við lesum í Morgunblaðinu.