144. löggjafarþing — 35. fundur,  19. nóv. 2014.

Seðlabanki Íslands.

390. mál
[16:15]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það er nokkuð miður að þetta frumvarp er svona seint á ferðinni í ljósi þess að um endurflutt mál er að ræða, en kannski einkum og sér í lagi vegna þess að hæstv. ríkisstjórn hefur stillt málum þannig upp að afgreiðsla þessa frumvarps sé mikilvæg forsenda fjáraukalaga sem hér á að ræða til 2. umr. á morgun og þá væntanlega gera að lögum fljótlega í framhaldinu. Það setur nefndarvinnu við þetta mál, sem er býsna stórt, nokkuð þröngar skorður.

Þar við bætist ef ég hef skilið rétt, sem ég hef reyndar ekki fengið skýr svör við enn þá og væri gaman að fá kannski núna seint og um síðir, að hin breytta útfærsla skuldaniðurfærslunnar byggir meðal annars á þeim afkomubata ríkisins sem þetta frumvarp á að skila bókhaldslega.

Ég hef spurt, og það er ákaflega skýr spurning, herra forseti: Hefur ríkisstjórnin ákveðið að breyta útreikningsforsendum skuldaniðurfærslunnar eins og að þessar heimildir í lögum væru til staðar eða yrðu til staðar, þ.e. að heimilt yrði að færa niður eigið fé Seðlabankans og afkoma ríkisins batnaði af þeim sökum og að sá afkomubati væri notaður sem réttlæting þess að greiða meira inn á leiðréttingarhluta lánanna vegna skuldaniðurfærslunnar strax á þessu ári en ella yrði gert? Það eru 40 milljarðar í staðinn fyrir 20. Mér finnst Alþingi eiga heimtingu á að vita hvernig ríkisstjórnin nálgast hlutverk löggjafans og fjárstjórnarvaldsins og fjárlagavaldsins að þessu leyti. Heimildin til að færa niður fé Seðlabankans kemur þá fyrst með lögfestingu þessa frumvarps en fjáraukalögin byggja á því að sá afkomubati verði.

Nú kann að vera fullt tilefni til að taka fjármálaleg samskipti ríkissjóðs og Seðlabankans til athugunar. Ég ætla alls ekki að draga úr því að svo geti verið en við skulum þá hafa í huga að um er að ræða tvo vasa á sama jakkanum, þ.e. Seðlabankann og ríkissjóð. Seðlabankinn er með reikning ríkisins, þar geymir ríkið innstæður sínar og ríkið á 100% í Seðlabankanum. Í okkar tilviki nú um stundir er staðan enn sérstakari vegna þess að ekki er langt um liðið síðan ríkið þurfti að endurfjármagna Seðlabankann og ríkið skuldar hverja einustu krónu sem það notaði til þess, þ.e. útgefið er skuldabréf upp á eina 120–130 milljarða kr., eftir því sem fjármálaráðherra vinsamlegast upplýsir mig hér um að staðan á því sé í í dag, til að byggja aftur upp efnahag fyrir Seðlabankann sem bókfærir nú í ársreikningum sínum 90 milljarða í eigið fé. Ríkið skuldar hverja krónu vegna þeirrar aðgerðar og rúmlega það sem er bókfært eigið fé Seðlabankans í ársreikningi hans. Þessi lækkun eigin fjár er þess vegna í mjög sérstöku samhengi og hugsanlega mun fleirum en mér ganga illa að ná algerlega utan um hvernig þetta er fært eða hugsað vegna þessara óvenjulegu aðstæðna.

Það er ekkert óskuldsett eigið fé í reynd í Seðlabankanum í seðlum eða gullstöngum. Nei, það er bara skuldabréf frá ríkissjóði sjálfum. Nú ætlar ríkissjóður að lækka þetta eigið fé og lækka síðan skuldina í framhaldinu en þetta fer um ríkið þannig að það er bókfært sem afkomubati.

Þá er að mörgu að hyggja, þar á meðal hvernig þetta bókhald er í dag. Samkvæmt gögnum sem ég hef frá Ríkisendurskoðun leyfir Ríkisendurskoðun sér að minna á að eignfært verðmæti stofnfjáreignar ríkissjóðs í Seðlabankanum var 77 milljarðar í árslok 2013, eigið fé bankans hins vegar tæpir 90. Eignfærslan hjá ríkissjóði er þannig lægri en bókfært eigið fé Seðlabankans í ársreikningi hans. Hvað ætlar ríkið þá að gera ef það færir niður þetta eigið fé um 26 milljarða? Þá sýnist mér að nokkuð snúin staða sé komin upp við að fallast á tekjufærslu allrar þeirrar niðurfærslu hjá ríkinu. Ég fæ ekki betur séð en að þá verði komin upp öfug staða, þá verði bókfært eigið fé í ársreikningum Seðlabankans lægra en eignfært eigið fé hjá ríkissjóði. Það getur varla verið ætlunin. Nú heyrði ég að vísu fjármálaráðherra segja að bókhaldslega tekjufærslan yrði ekki nema 21 milljarður. En ég fæ þetta ekki til að ganga upp nema því aðeins að menn viti af því fyrir fram að einhver tiltekinn hagnaður verði á Seðlabankanum á þessu ári sem eyðir þessum mismun. Hann höfum við ekki séð.

Ég er að rekja þetta örlítið, ég veit að þetta er flókið, til að draga athyglina að því að það eru að ýmsu leyti ekki mjög skýrar forsendur til að fara í þessa aðgerð nú. Þær eru það ekki. Ég hef þess vegna velt fyrir mér hver eðlilegasta aðgerðin væri. Hæstv. fjármálaráðherra segir: Tekjufærslan er ekki aðalatriðið, hún er bara afleiðing af þessu nýja fyrirkomulagi. Gott og vel, setjum hana þá til hliðar og segjum: Hún er ekkert aðalatriði. Einbeitum okkur að hinu nýja fyrirkomulagi um eiginfjárreglur Seðlabankans og samskiptum hans við ríkissjóð að því leyti. Hvernig væri þá að mínu meti eðlilegast að gera þetta? Með því að lögfesta með gildistöku strax þessi ákvæði um það hvernig Seðlabankinn skuli setja sér eiginfjármarkmið á grundvelli skilgreindra þátta, láta bankaráð Seðlabankans staðfesta þær reglur, sjá hverjar þær verða eða hvert Seðlabankinn telur á grundvelli þessara nýju viðmiða eigið fé sitt þurfa að vera til að mæta rekstrinum og áhættunni og þessu sem þarna er talið upp. Og þá kæmi í ljós hvort forsendur væru fyrir lækkun eigin fjár og niðurfærslu þess.

Ég spyr líka hæstv. ráðherra: Eru menn alveg búnir að fullvissa sig um að þessi aðgerð sé nógu trúverðug út á við, að það sé kominn tími á það hjá Íslandi að færa niður fyrir allra augum eigið fé seðlabanka síns sem nýlega varð heimsfrægur fyrir það að vera einn örfárra seðlabanka í sögunni, ef ekki nánast bara eini, sem hafa beinlínis farið á hausinn? Ef við horfum til núgildandi lagaákvæða eru þau þannig að viðmiðið er að eigið fé Seðlabankans eigi að vera sem næst 2,25% af fjárhæð útlána og innlendrar verðbréfaeignar í lánakerfinu. Sú tala er í dag um 135 milljarðar en eigið féð er 90. Nú getum við að sjálfsögðu velt því fyrir okkur hvort þetta sé úrelt viðmið og að við eigum að horfa á einhverjar aðrar tölur þarna. Ég er ekki endilega talsmaður þess að við eigum að liggja með meira eigið fé í Seðlabankanum en traust rök eru fyrir. Við núverandi aðstæður í ríkisbúskapnum er að sjálfsögðu ekki ástæða til þess. Við munum þó væntanlega þurfa að útlista aðgerðina út á við og við þurfum að vera viss um að það sé fullur trúverðugleiki á bak við þetta. Hvernig mun það koma út? Finnst mönnum ekki svolítið skrýtið að svona fáum árum eftir að Seðlabankinn tapaði öllu sínu eigin fé og miklu meira en það, þannig að ríkið varð að hlaupa undir bagga með honum og skuldar þess vegna mun hærri fjárhæð en nemur eigin fénu í bankanum, getum við farið að lækka það, færa það niður?

Það er ýmislegt í umhverfinu sem vekur spurningar í þeim efnum. Þannig má nefna að uppgjöri á þessu barni ríkisins og Seðlabankans, ESÍ, er ekki lokið og ýmislegt óljóst um hvernig því ljúki, hvernig gangi að endurheimta þar eignir eða verðmæti þannig að tjónið verði sem minnst og vonandi ekkert þannig að ríkið þurfi ekki að taka á sig frekari afskriftir og Seðlabankinn verði fyrir sitt leyti ekki fyrir frekari töpum en orðið er. Nóg er nú samt, 192 milljarða kr. gjaldfærsla er á töpunum í ríkisreikningi ársins 2008. Það er einn af stærstu einstöku reikningum hrunsins enn sem komið er. Uppgjörið á ESÍ er stórt og flókið viðfangsefni.

Í öðru lagi má nefna fjármagnshöftin. Seðlabankinn er þar aðalframkvæmdaraðilinn, hann fer með framkvæmd fjármagnshaftanna og verður lykilaðili í sambandi við afnám þeirra eða öll skref í þeim efnum. Hann þarf að vera sterkur og hafa fullan trúverðugleika gagnvart þeirri aðgerð ef vel gengur og sumir sjá í hillingum alveg gríðarlegan gróða af því fyrir Ísland að aflétta fjármagnshöftunum eða ákveðnum atriðum tengdum þeim. Ég hef alltaf varað menn við að sumt af því geti verið sýnd veiði en ekki gefin, það sé kannski fullsnemmt að gefa sér að Ísland komi út í stórgróða eftir að hafa orðið að setja á fjármagnshöft og fara síðan í þá flóknu og erfiðu aðgerð að afnema þau sem sagan kennir okkur að er alltaf miklu erfiðara en að setja þau á án þess að hér fari hlutirnir úr böndunum, að við missum hið dýrkeypta, brothætta jafnvægi okkar úr skorðum. Það er auðvitað aðalmarkmiðið en það er ekkert sjálfgefið í þeim efnum. Þess vegna er dálítið snemmt að gefa sér að við getum farið að taka til okkar aftur að einhverju leyti þetta takmarkaða eigið fé sem Seðlabankinn býr þó við í dag á grundvelli þess að ríkið hefur skuldsett sig til að leggja honum það til.

Ég tel mjög mörgum spurningum ósvarað í þessu máli og þar af leiðandi er bagalegt ef við fáum ekki sæmilegan tíma til að vinna með það. Ég vísa aftur til þess sem ég sagði, að að mörgu leyti hefði ég talið eðlilega röð þessara hluta að lögfesta nýju viðmiðin um eigið fé, að setja Seðlabankann af stað með að setja sér þetta nýja eiginfjármarkmið, láta bankaráðið staðfesta viðmiðin og þá sæjum við til hvers það teiknaði og gætum í framhaldinu metið og gert þær ráðstafanir sem sneru að ríkisbókhaldinu. Að mínu mati væri það miklu eðlilegri röð.

Þegar maður skoðar frumvarpið er meðal annars sagt í greinargerð um ákvæði 3. gr. frumvarpsins, sem er kjarnagreinin, að þar sé framsetningu breytt og orðavali og ekki gerð tillaga um að viðmið eða eiginfjárþættir sem liggja eigi til grundvallar ákvörðun um eiginfjármarkmið bankans verði útlistaðir jafn ítarlega og gert var í fyrra frumvarpi. „Skýringar sem fram koma í athugasemdum frumvarpsins verða því í meira mæli notaðar til fyllingar ákvæðum frumvarpsins verði það að lögum.“ Með öðrum orðum, það er vísað mjög um lögskýringar í greinargerð frumvarpsins og frekari skýringar en verði að finna í lagatextanum sjálfum. Ég verð að segja að þegar ég les greinargerðina finnst mér það ekki alveg nógu gott. Jú, jú, það er farið yfir þessa þrjá þætti sem eigi að vera ráðandi, eiginfjárþátt I, II og III, en það er mjög matskennt að hvaða niðurstöðu menn komast þar. Eiginfjárþáttur I er út af fyrir sig afmarkaðastur, að tekjur bankans af eignum sem fjármagnaðar eru með skuldum sem ekki bera vexti standi undir rekstrarkostnaði bankans, þ.e. hagnaður vegna seðla og myntar í umferð og svo af stofnfé, og síðan er eiginfjárþáttur II sem er áhætta sem til staðar er á efnahagsreikningi bankans. Þar ætla menn að nota skilgreinda/tölfræðilega aðferðafræði. Er það ESÍ að einhverju leyti, er það þessi óeðlilega staða sem tengist miklum gjaldeyrisforða og fjármagnshöftum? Og svo er eiginfjárþáttur III, óvissa sem bankinn stendur frammi fyrir á hverjum tíma í ljósi sviðsmyndagreiningar sem ætlað er að ná til næstu þriggja ára. Ég hugsa að þessi sviðsmyndagreining og þetta mat á óvissu í efnahagsreikningi bankans hljóti að vera nokkuð snúin leikfimi við núverandi aðstæður í okkar hagkerfi og vísa aftur til þessara tveggja þátta sem ég nefndi, ESÍ og fjármagnshaftanna.

Ýmsar áleitnar efasemdir leita á mig eftir að hafa reynt aðeins að skoða þetta undanfarna tvo sólarhringa frá því að frumvarpið kom fram. Ég tek enn og aftur fram að ég er ekki andvígur því að farið verði í að endurskoða fyrirkomulagið en mér finnst dálítið bráðræðislega að þessu staðið, verð ég að segja, og þar finnst mér að liggi meira á en manni finnst þægilegt. (Forseti hringir.) Ef þessi tekjufærsla yrði sett til hliðar og menn sættust á að hún færi fram á árinu 2015 væru allt aðrar aðstæður til að eiga við þetta.