144. löggjafarþing — 35. fundur,  19. nóv. 2014.

Seðlabanki Íslands.

390. mál
[16:38]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hans fróðlegu ræðu og vil aðeins eiga orðastað við hann um eigið fé í seðlabönkum. Þar eru ýmis álitamál.

Eigið fé er mismunur skulda og eigna — ég ávarpa þingmanninn og bið hann að láta svo lítið að hlusta á mig rétt á meðan svo að hann geti svarað því hvort hann sé sammála mér. Eigið fé Seðlabankans, sem er 90 milljarðar, er mismunur á eignum og skuldum; eignir eru 1.002 milljarðar og skuldir bókfærðar 912 milljarðar og eigið fé 90 milljarðar, mismunur af þessu tvennu. Meðal skulda eru óvaxtaberandi skuldir, 47 milljarðar í seðlum sem eru taldir til skuldar. Svo eru þar líka 77 milljarðar í innstæðum sem Seðlabankinn hefur búið til handa fjármálastofnunum og bera að vísu vexti. Einnig eru það innstæðubréf sem bera líka vexti og samtals gerir það 150 milljarða sem segja má að Seðlabankinn hafi búið til af peningum.

Ég velti því fyrir mér hvort rétt sé að færa þetta allt til skuldar, sérstaklega þó seðlana. Seðlarnir bera enga vexti og það er enginn gjalddagi á þeim og ef einhver kemur með seðil í Seðlabankann vill hann bara fá annan eins seðil og á ekki rétt á neinu öðru. Þetta er nánast eins og ég ef væri með hugbúnaðarfyrirtæki og væri að framleiða hugbúnað sem héti seðlar og þegar ég sel hugbúnaðinn þá segi ég: „Ja, hérna færðu einn hugbúnað sem heitir seðil en ég ætla að færa til skuldar í bókhaldi mínu þegar ég afhendi þér hann eins og Seðlabankinn gerir, ég ætla ekki að færa neinar tekjur og eigið fé mitt stækkar ekki neitt við það að ég selji þér þennan seðil. Þú getur fengið hvenær sem þú vilt annan seðil alveg eins í staðinn.“

Er ekki verið að vanmeta eigið fé Seðlabankans um 47 milljarða? Hefði ekki átt að færa þessa seðlaaukningu til tekna, það hefur verið seðlaaukning hjá Seðlabankanum frá hruni um 30 milljarða (Forseti hringir.) það hefur allt verið fært til skuldar. Hvað finnst hv. þingmanni um þetta bókhald?