144. löggjafarþing — 35. fundur,  19. nóv. 2014.

Seðlabanki Íslands.

390. mál
[16:50]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Mér fannst þetta gott svar hjá hv. þingmanni. Hann vildi ekki algjörlega fallast á það sem niðurstöðu af annars mjög skarpri rökfærslu sinni að þetta væri bókhaldstrix hjá ríkisstjórninni. En ef ég reyni að analísera og skilgreina síðara svar hv. þingmanns sagðist hann vilja gefa sér svolítinn tíma til að rýna betur í þetta til að komast að nákvæmlega sömu niðurstöðu. Ég ræð það af máli hv. þingmanns, sem gegndi hér af miklum skörungsskap embætti fjármálaráðherra og veit vel hvað til friðar ríkissjóðs heyrir, að hann sé í reynd að segja að hér sé ákaflega gáleysislega gengið eða a.m.k. af léttúð um eigið fé Seðlabankans. Miðað við þær sviðsmyndir sem hv. þingmaður reifaði hér og vísaði til að fyrir lægju um hugsanlega framtíð Seðlabankans ríkir það mikil óvissa um hana á þessari stundu að kannski mætti segja að miðað við aðstæður núna væri af fullmikilli léttúð farið, (Forseti hringir.) ef menn vilja stíga til jarðar af ýtrustu gætni.