144. löggjafarþing — 35. fundur,  19. nóv. 2014.

Seðlabanki Íslands.

390. mál
[17:00]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum hér um Seðlabanka Íslands. Hann er sjálfstæður og utan hins lýðræðislega kjörna sviðs, Alþingis til dæmis, og hann hefur gífurlega mikil áhrif á almenning og hag atvinnulífsins.

Ég hef mjög dapra reynslu af sögu Seðlabankans. Alla mína tíð hefur hann hegðað sér undarlega. Hann hélt raunvöxtum á sparifjárinnstæðum neikvæðum frá 1950–1980. Við það brunnu upp innstæður landsmanna. Þeir sem sýndu sparnað og ráðdeild töpuðu, þeir sem skulduðu græddu. Þetta er náttúrlega ekki nógu gott eða mér fannst það ekki. Það getur vel verið að einhverjum hafi fundist þetta voðalega gott. Þarna voru fluttir gífurlegir fjármunir frá sparsömu og ráðdeildarsömu fólki, þ.e. sparifjáreigendum sem sumir kalla núna fjármagnseigendur, til skuldara sem alltaf hafa notið velvildar í þjóðfélaginu. Ég hygg að það hafi aldrei fyrr né síðar orðið önnur eins eignatilfærsla frá sparifjáreigendum til skuldara. Fólkið fattaði þetta ekki eða skildi það ekki vegna þess að þetta gerðist mjög hægt. Vextirnir voru kannski 7% en verðbólgan 11%. Svona gekk þetta ár eftir ár eftir ár. Við þekkjum öll sögu af gömlu fólki sem seldi íbúð eða hús í Reykjavík, lagði peninginn inn á bankabók og mörgum árum seinna, ég þekki dæmi um það, þá dugði peningurinn varla fyrir jarðarför. Þetta er afrakstur Seðlabankans.

Hvaða afleiðingar hefur þetta haft, herra forseti? Þetta kenndi þjóðinni að eyða. Þetta kenndi henni að spara ekki og eyða heldur um efni fram og sem allra mest. Því meira sem hún eyddi því betra. Þannig lærði þjóðin þessa lexíu og var mjög námsfús; það borgaði sig að skulda. Hún hefur síðan verið mjög dugleg að stunda neyslu og eyðslu og skulda.

Peningastefna Seðlabankans var með ólíkindum í áratug fyrir hrun. Ég og fyrrverandi hv. þingmaður, Einar Oddur Kristjánsson heitinn, bentum á það aftur og aftur að Seðlabankinn væri að búa til peningamaskínu. Hann hélt innlánsvöxtum hærri, miklu hærri en útlánsvextir voru víða um heim. Fólk um alla Evrópu tók lán í Japan eða Sviss með 4% vöxtum, skipti yfir í krónur og lagði inn á innlánsreikning á Íslandi með 12% vöxtum og tappaði af á hverju ári 8% eða svo. Svo fór náttúrlega allt á hausinn. Gengið hrundi og fólk tapaði óhemju á þessu ævintýri, en á tímanum meðan þetta gekk yfir lifðu Íslendingar í vellystingum. Það voru komin jól. Gengið hélst mjög sterkt af því það flæddi svo mikið af gjaldeyri inn, nóg af fjármagni. Menn fengu lánað fyrir ferðalögum og jeppum og bílum og hverju sem var. Gleðin var mikil hjá þeim sem tóku lán og menn voru hvattir til þess. Peningastefna Seðlabankans var líka mjög skrýtin á þessum tíma.

Við sitjum núna, herra forseti, með 200–300 milljarða af svokölluðum jöklabréfum. Eigendurnir eru dreifðir um alla Evrópu og þeir vilja gjarnan skipa þessu yfir í gjaldeyri. Það er bara ekki hægt af því við eigum ekki nægilega mikinn gjaldeyri til þess. Það er enn ein afleiðing af peningastefnu Seðlabankans sem er óháður og hefur mikið vald. Eins og ég hef nefnt í þessum tveimur dæmum kemur það niður á hag heimilanna.

Svo gerist það lengi vel, sem ég bara skil ekki, að stýrivextir eru 5–6% í höftum og eru núna langt yfir verðbólgu. Af hverju þarf það? Er það til þess að hvetja til fjárfestingar? Hefur hún eitthvað verið sérstaklega mikil, herra forseti? Er það eitthvað sem sýnir að þessi stefna hafi verið rétt? Ónei, fjárfesting er í hættulegu lágmarki. Er þetta til þess að hvetja fólk til sparnaðar? Ónei, herra forseti, innstæður heimilanna hafa minnkað og rýrnað stöðugt frá hruni. Er þetta til þess að hemja neyslu eða eyðslu? Það sýnist mér ekki. Mér sýnist hagvöxturinn vera borinn uppi af eyðslu og neyslu. Til hvers eru þá vextirnir 4,5% í höftum?

Það sem gerist, herra forseti, er að erlendir eigendur þessara miklu krónueigna sem eru ekki bara þessir 300 milljarðar jöklabréf, heldur líka inneignir þrotabúanna sem eru 300–400 milljarðar í viðbót, að þessar innstæður bera núna um 5% vexti og þá má flytja til útlanda. Það fæst gjaldeyrir fyrir því hjá Seðlabankanum að flytja vextina af þessum innstæðum til útlanda. Það þýðir að þegar Seðlabankinn hefur vextina svona háa þá geta menn flutt meira út af vöxtum af innstæðunum, sem þýðir aftur að eftirspurn eftir krónum verður meiri. Þannig að ef eitthvað er þá eykur þetta frekar verðbólgu en hitt.

Ég spyr mig: Hvernig stendur á því að Seðlabankinn ákveður stýrivexti svona háa? Ég hef ekki fengið almennilegt svar við því og ég hef ekkert um það að segja frekar en aðrir hv. þingmenn.

Svo hefur verið haldið uppi alveg gífurlega háum gjaldeyrisvarasjóði. Hvernig er hann fenginn? Jú, Seðlabankinn og ríkissjóður taka lán í útlöndum, borga fyrir það 3–4% vexti, jafnvel 5–6% og leggja inn á gjaldeyrisvarasjóð í Bretlandi, Bandaríkjunum eða einhvers staðar með sáralitlum vöxtum. Við erum að borga vaxtamun upp á 3–4% á hverju einasta ári og það kostar okkur óhemju. Ég spyr: Af hverju þurfum við svona háan gjaldeyrisvarasjóð í höftum? Hver veitir þessa ráðleggingu?

Reynslan mín af sögu Seðlabankans er því frekar dapurleg.

Síðan er spurningin um ríkisábyrgð. Hv. þm. Árni Páll Árnason sagði að það væri ríkisábyrgð á innstæðum. Mér er ekki kunnugt um það. Það er engin ríkisábyrgð á innstæðum, sem betur fer. Það eru yfirlýsingar stjórnvalda um að þeir muni tryggja innstæður, en það er ekki sama og ríkisábyrgð. Samkvæmt stjórnarskrá Íslands má ekki greiða út fé úr ríkissjóði nema það sé ákveðið í fjárlögum eða fjáraukalögum. Mér er ekki kunnugt um að það hafi nokkurn tímann verið sett inn í fjárlög eða fjáraukalög að það eigi að tryggja innstæður. Það er því ekki ríkisábyrgð á innstæðum, til að hafa það alveg á tæru.

Hins vegar getur Seðlabankinn gefið út og tekið á sig ríkisábyrgð án þess að spyrja Alþingi. Hann hefur getað gert það hingað til en þetta frumvarp mun væntanlega breyta því. Fyrir hrun veitti hann, það er frægt dæmi, lán til eins banka upp á 75 milljarða og þar með jókst ríkisábyrgð um 75 milljarða. Það hefur verið heimilt hingað til fyrir Seðlabankann að veita ríkisábyrgð burt séð frá stjórnarskránni sem bannar ríkisábyrgð nema í fjárlögum eða fjáraukalögum, en Seðlabankinn er með ábyrgð ríkissjóðs og samkvæmt lögum ber ríkið ábyrgð á Seðlabankanum.

Þarna tengist þessi reynsla mín og saga af Seðlabankanum inn í þetta frumvarp sem við erum að ræða. Þess vegna leyfði ég mér að koma með þessar sögur af reynslu minni af Seðlabankanum og vonast ég til þess að samskipti fjárveitingavaldsins og þess aðila sem veitir ríkisábyrgð, þ.e. Alþingis og Seðlabankans sem getur veitt hana líka, komist á betra ról. Þess vegna styð ég þetta frumvarp. Ég held að það sé mjög jákvætt.

Við þurfum virkilega að fara að spyrja gagnrýninna spurninga. Hvernig getum við haft eitthvað um það að segja hvaða gífurlegu áhrif Seðlabankinn hefur á heimilin? Hann hefur haft það í gegnum söguna. Hann er búinn að taka mikla fjármuni af sparifjáreigendum. Hann er búinn að láta þjóðina axla ábyrgð á jöklabréfunum með peningamálastefnu Seðlabankans og hann hefur haldið stýrivöxtum háum sem kemur niður á heimilum líka, alla vega þeim heimilum sem eru með óverðtryggðar skuldir eins og yfirdrátt og annað slíkt. Þess vegna skiptir verulegu máli fyrir heimilin hvernig þessum samskiptum er háttað.