144. löggjafarþing — 35. fundur,  19. nóv. 2014.

Seðlabanki Íslands.

390. mál
[17:37]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég hef búið í Kanada sjálfur, bjó þar í tvö og hálft ár. Ég tók eftir einu þar sem Íslendingi þykir svolítið skrýtið, þ.e. að það er ekki nokkur maður í skuld þar eða engir í mínum félagsskap vegna þess að menn fá ekki svo auðveldlega lán. En markaðurinn hegðar sér öðruvísi í öðrum löndum.

Íslendingar eru upp til hópa líklegir til að taka lán og líklegir til að fá lán, eða það hefur verið þannig. Ég óttast að sú þróun byrji upp á nýtt. Það er þess vegna sem ég hef miklar áhyggjur af eiginfjárhlutfallinu. Það er vegna þess að ég geri fyllilega ráð fyrir því að ekkert hafi breyst í hegðun Íslendinga gagnvart efnahagnum, hvað þá innviðum efnahagskerfisins sjálfs, ekkert í grundvallaratriðum; örfáir varnaglar hér, fjármálastöðugleikaráð og eitthvað svona, en ekkert sem breytir því hvernig dýnamíkin í hagkerfinu sjálfu virkar. Hún er í veigamiklum atriðum öðruvísi annars staðar.

Ég hef meiri áhyggjur af hegðun Íslendinga, fjárfesta sem almennings, þingmanna sem bankamanna, í efnahagnum en ég hefði af kanadíska hagkerfinu til dæmis. Enda segi ég nú stundum að ekkert hrun hafi orðið í Mið-Kanada 2008, í sjálfu sér ekki. Einn og einn bransi sem átti í erfiðleikum, en ekki þannig að teljandi þætti. 7,5% atvinnuleysi sem er ekkert óvenjulegt við kanadíska skalann.

Jafnvægi í rekstri er veigamikið atriði, að mínu mati þegar allt er í lagi, en jafnvægi í rekstri er óhugsandi þegar eitthvað kemur upp á eins og gerðist 2007 til að byrja með og síðan 2008. Mér finnst svolítið að við þurfum að hafa hluti eins og eiginfjárhlutfallið hátt; og með háu á ég við svona 20%, (Forseti hringir.) 20–30%. Mér skilst að það sé 10% núna. Mér finnst hv. þingmaður kannski ekki alveg líta á þann þátt nógu sterkt.