144. löggjafarþing — 35. fundur,  19. nóv. 2014.

Seðlabanki Íslands.

390. mál
[17:39]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Það gætir örlítils misskilnings í þessu máli. Ég er algjörlega fylgjandi hv. þingmanni með það að eiginfjárhlutfall viðskiptabanka eigi að vera hátt. Þar skiptir það mjög miklu máli af því þeir geta ekki og hafa ekki leyfi til að búa til peninga. Þegar menn hætta að treysta viðskiptabankanum sínum og vilja fá að breyta innstæðunum sínum yfir í seðla þá geta þeir ekki prentað seðla.

Eini aðilinn sem má prenta seðla er Seðlabankinn. Hann lendir aldrei í slíkum vandræðum. En ef einhver á krónukröfu á Seðlabankann þá prentar hann krónukröfu og afhendir. Það er því ekkert spurning með þetta, með eiginfjárhlutfallið. Það er miklu meira atriði fyrir Seðlabankann hvort hann eigi gjaldeyri til að afgreiða þá sem vilja breyta krónum yfir í gjaldeyri til dæmis. Það er allt annað mál og er ekki til umræðu hér.

Nú á Seðlabankinn mjög mikinn gjaldeyrisvaraforða, hugsanlega miklu meiri en hann þyrfti í venjulegu árferði. Þar held ég að gerð hafi verið mikil varúðarráðstöfun. Hann hefur safnað það sem af er ári 95 milljörðum í gjaldeyrisvaraforðann til viðbótar. Hann hefur hugsanlega keypt þann gjaldeyri með eignum sem hann átti fyrir — þá gerði hann það ekki með seðlaprentun — eða hann bjó til nýja peninga og borgaði fyrir það. Ég held að hann hafi gert það með fyrri leiðinni, selt einhver eignasöfn fyrir gjaldeyri eða skuldabréf. Þá veldur það ekki verðbólgu.

Þetta er ástæðan. Þetta er ástæðan fyrir því að við þurfum ekki að hafa áhyggjur af eiginfjárhlutfallinu í sjálfu sér. Við ættum miklu frekar að horfa á það hvort nægur gjaldeyrir sé í Seðlabankanum til þess að viðskiptin við útlönd og allt það geti gengið snurðulaust fyrir sig, það verður ákveðið hlutfall kannski af erlendum viðskiptum.

En aðeins að koma inn á sparnaðinn meðal Íslendinga og Kanadamanna. Ég held að það sé alveg rétt að Íslendingar gengu ansi hratt fram í því að skuldsetja sig, bæði til að kaupa fasteignir og kannski aðra fjármuni. Ég held við hljótum að hafa lært af þessu mikla lexíu, (Forseti hringir.) ekki öll en stór hluti þjóðarinnar, enda hafa skuldir þjóðarinnar lækkað úr 130% af vergri landsframleiðslu niður í 90% frá hruni.