144. löggjafarþing — 35. fundur,  19. nóv. 2014.

Seðlabanki Íslands.

390. mál
[17:53]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Ástæða þess að ég lengi þessa umræðu er sú að það hringja einhverjar viðvörunarbjöllur í kollinum á mér. Ég vil því ekki að það sé ósagt látið sem ég hef að segja.

Það eru tvö verkfæri sérstaklega til að stýra hagkerfinu, það er peningamálastefna og fjármálastefna. Um langt skeið hefur verið talið nauðsynlegt að seðlabankar sem stýra peningamálastefnu séu sjálfstæðir og óháðir ríkisvaldi og geti farið sína leið og síðan sjái ríkisstjórn og fjárveitingavald, Alþingi í okkar tilfelli, um fjárveitingavaldið. Síðan er kúnstin að beita þessum tveimur verkfærum saman í takt svo að hagstjórnin verði sæmileg.

Á árunum fyrir hrun var ekkert samræmi þarna á milli. Á meðan rekin var aðhaldssöm stefna í Seðlabankanum að því leyti að vextir voru mjög háir, sem reyndist náttúrlega mjög óskynsamlegt vegna þess að hingað streymdi inn fjármagn og menn tóku út og neysla jókst hér mjög mikið, þá var allt á fullu blússi í ríkisfjármálunum og ekki mikils aðhalds gætt þar.

Auðvitað er dæmið sem við erum með hérna núna ekki hið stóra dæmi um hver sé stefnan í ríkisfjármálum og hver sé stefnan í peningamálum. Á hinn bóginn er ríkisvaldið að seilast inn í Seðlabankann, það er að seilast inn í reikninga Seðlabankans. Ég hef áhyggjur af því.

Sú vegferð sem mér sýnist við vera núna í byrjaði þegar fjárlögin voru samþykkt í fyrra og ríkissjóður ákvað einhliða að lækka vaxtagreiðslur sínar af skuldabréfaláni Seðlabankans um 10 milljarða og ætlaði þannig að fá 10 milljarða inn í fjárlögin. Síðan kom í ljós þegar leið á árið að þetta var ekki gerlegt. Þá var farið í samningaviðræður sem tókust ekki betur en svo að frumvarp sem var lagt fram á vordögum var þannig úr garði gert að eftir því sem manni skilst gat Seðlabankinn ekki alveg sætt sig við það og því erum við með þetta frumvarp núna. Nú þarf að samþykkja það.

Frumvarpið þýðir, ef ég skil það rétt, að 21 milljarður færist inn á reikninga ríkissjóðs á fjáraukalögum. Fjáraukalögin eru fyrir árið 2014. Fjáraukalög eru í afgreiðslu. Menn þurfa að halda mjög vel á spöðunum í meiri hlutanum hér ef þeir ætla að vera búnir að samþykkja þetta frumvarp fyrir þann tíma. Allt er þetta gert á handahlaupum. Til þess að allar þessar fjárhæðir náist er reiknaður hagnaður af árinu 2014 hjá Seðlabankanum sem er ekki enn þá ljós. Menn gera lítið úr því að hann sé áætlaður, þetta verði allt saman allt í lagi.

Það má vel vera, virðulegi forseti, að þetta verði allt saman allt í lagi, en þessi vinnubrögð hræða mig. Ég held að það sem við þurfum hér á landi full varkárni í samskiptum Seðlabanka og ríkissjóðs og í allri fjárhagsstjórn.

Við skulum þá bara rifja upp: Af hverju er þetta hérna núna? Þetta er út af skuldabréfi sem ríkissjóður gaf út til að forða Seðlabankanum frá gjaldþroti og nú er allt í einu hægt að færa það skuldabréf niður og færa þessa milljarða inn í ríkissjóð. Svo getum við haldið áfram og spurt um gjaldþrot Seðlabankans. Það var út af því að allt fór hér á höfuðið eins og við öll vitum. Það má aftur rifja upp 500 millj. evra lánið sem var hálfur gjaldeyrisvarasjóður landsins sem virðist hafa verið settur út úr Seðlabankanum í fáti þennan örlagaríka dag, 6. október 2008. Þetta hræðir mig allt saman mikið.

Mig langar líka að koma aðeins inn á orðanotkun hér. Ég hef lært það í gegnum árin að þegar menn vilja pínulítið fela það sem þeir eru með þá segja þeir að málin séu flókin, óskaplega flókin. Við heyrðum það t.d. hérna um daginn í umræðu fjáraukalögin, held ég, að fjáraukalögin lækkuðu um milljarð vegna þess að ekki hefði verið gengið frá reglugerð um gjaldskrá sérfræðilækna og það var eitthvað flókið. Það er bara ekkert flókið við það. Það hafði sem sagt verið ákveðið að færa ekki upp gjaldskrána á þessu ári vegna þess að menn ætla væntanlega að láta neysluverðsvísitöluna ekki reiknast upp og þeir ætla að fresta því til næsta árs, þannig að í ár greiðir fólk minna ef það fer til sérfræðilækna en það mun gera á næsta ári því að þá hækka þessi gjöld. Það er ekkert flókið við það. Þetta vildu menn meina að hefði verið flókið. En þessar millifærslur og æfingar sem okkur er boðið upp á núna segja menn að séu ekkert flóknar heldur liggi þær ljósar fyrir. Ég mótmæli því, virðulegi forseti. Þetta er nokkuð flókið dæmi og sérstaklega hvernig það er sett fram. Við eigum að hafa varann á.

Ef ég kem svo að einu alveg sérstöku dæmi sem hræðir mig svolítið þá er það ákvæðið um að í framtíðinni verði þetta þannig að ef það er hagnaður af Seðlabankanum og Seðlabankinn telur að það eigi að hækka eigið fé þá þarf að fá umsögn ráðherra og síðan þarf bankaráð að samþykkja hækkunina. Við skulum ekki gleyma því, virðulegi forseti, að bankaráð Seðlabanka Íslands er pólitískt. Þarna tel ég ríkisvaldið — þá er ég ekkert að tala bara um þessa ríkisstjórn, ég er að tala um næstu ríkisstjórn og hina þar á eftir sem geta verið ólíkt samsettar þessari — vera komið með tækifæri til þess stöðva það að hagnaður af bankanum sé notaður til að hækka eiginfjárhlutfallið í andstöðu við stjórn Seðlabankans, sem er bankastjórinn eða bankastjórarnir ef þeir eru fleiri, og í staðinn sé greitt inn í ríkissjóð. Þetta er í rauninni ekkert annað en seðlaprentun. Þó að þarna sé ekki um gífurlega háar upphæðir að ræða þá eru stjórnmálamenn samt sem áður komnir þarna með verkfæri sem þeir geta notað til þess að hafa afskipti af Seðlabankanum í þessum mæli og taka fé út úr honum. Þetta finnst vont ákvæði. Á þetta hafa þingmenn bent á undan mér og lagt sérstaklega til við formann nefndarinnar að þetta verði skoðað.

Virðulegi forseti. Mér finnst fljótaskrift á þessu. Mér finnst þetta eins og reddingar. Mér finnst að við eigum ekki að fara þannig að þegar við breytum lögum um Seðlabanka Íslands, hvort sem það er um hve hátt eigið fé eigi að vera eða eitthvað annað. Við verðum að stíga varlega til jarðar hvað varðar þessa mikilvægu stofnun hér í þjóðfélaginu.