144. löggjafarþing — 35. fundur,  19. nóv. 2014.

almannatryggingar.

35. mál
[18:25]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Aldurstengd örorkuuppbót var tekin upp á sínum tíma með þeim rökstuðningi að það þyrfti að bæta þeim sem yrðu ungir öryrkjar upp þá staðreynd að þeir fá ekki að afla sér réttinda í lífeyrissjóði, sérstaklega ekki til framreiknings. Einnig það að þeir væru ekki búnir að safna sér eignum, fé og eignum, eins og aðrir sem yrðu öryrkjar seinna. Sá sem verður öryrki um fertugt er þá væntanlega búinn að kaupa sér íbúð og eignast hlut í henni með því að borga niður lán, hann á framreikningsrétt í lífeyrissjóði o.s.frv.

Gallinn við þessa hugsun er sá að þetta eru meðaltalstölur. Margir verða öryrkjar mjög ungir, t.d. sjómenn, og fá framreikning. Þeir eru kannski búnir að vera sjómenn í þrjú ár, fá fullan framreikning til ellilífeyrisaldurs og sá framreikningur getur verið umtalsverður og lífeyririnn umtalsverður. Eftir breytingu sem gerð var á lífeyriskerfinu í fyrrasumar skerða bætur úr lífeyrissjóði ekki bætur frá almannatryggingum, þ.e. grunnlífeyrinn og aldurstengdu uppbótina. Mjög margir öryrkjar fá fullan grunnlífeyri og örorkuuppbót, um 70 þús. kr. á mánuði, þrátt fyrir að vera með góðan lífeyri úr lífeyrissjóði. Þetta býr til misræmi miðað við hina sem verða seinna öryrkjar eða eiga ekki rétt á lífeyrissjóði.

Ég held því að þessi aldurstengda örorkuuppbót hafi reynst mjög illa til að ná því markmiði að vera uppbót fyrir það fólk sem verður öryrkjar ungt að árum og alveg sérstaklega á það við um þá sem aldrei fara á vinnumarkað. Það er hópur sem ég held að við ættum að bera umhyggju yfir, þ.e. fatlaðir sem fara aldrei á vinnumarkað, afla sér aldrei réttinda í lífeyrissjóði eða mjög óverulegra og hafa notið aldurstengdu örorkuuppbótarinnar sem miklu fleiri fá þó.

Svo varðandi það að menn lækki í launum við að fara á lífeyri. Það er þekkt í atvinnulífinu. Þeir sem eru í venjulegum störfum þurfa alltaf að búa sig undir að lækka umtalsvert í launum og ráðstöfunarfé þegar þeir fara á lífeyri. Þetta þekkir fólk og býr sig undir þetta, t.d. með séreignarsparnaði eða öðru slíku, til að mæta því áfalli, þannig að sú röksemd er ekki endilega til staðar. Ég held því að þetta frumvarp, þar sem gert er ráð fyrir því að aldurstengda uppbótin haldist, nái ekki vel markmiði sínu og sé í raun til hins verra.

Maður sem verður öryrki sjötugur fær mjög litla aldurstengda örorkuuppbót, svo að maður tali nú ekki um þann sem verður öryrki fimmtugur. En hann hefur ekkert síður þörf fyrir góðan lífeyri en annar sem verður öryrki mjög ungur ef þeir hafa báðir sambærilegan rétt úr lífeyrissjóði. Það er einmitt það sem aldurstengda örorkuuppbótin nær ekki fram, þ.e. að bæta fólki upp það sem það hefur ekki rétt til í lífeyrissjóði, ella ætti lífeyrir úr lífeyrissjóði kannski að skerða aldurstengdu uppbótina sérstaklega.

Varðandi þá sem eru öryrkjar alveg frá byrjun, alla ævi, fatlaðir og aðrir slíkir, þá hafa þeir notið aldurstengdu örorkuuppbótarinnar. Hins vegar hefur það gerst að framfærsluuppbótin, sem var tekin upp 2008–2009 og bætti stöðu þeirra sem voru mjög illa settir, þ.e. höfðu engin lífeyrisréttindi eða atvinnutekjur neins staðar. Staða þeirra batnaði umtalsvert við framfærsluuppbótina, um 20%, þeirra sem höfðu engar tekjur annars staðar. En á móti kemur að aldurstengda örorkuuppbótin skertist, merkilegt nokk, einar bætur skerða aðrar bætur, króna á móti krónu, sem og greiðslur úr lífeyrissjóði og atvinnutekjur. Þetta hefur haft mjög alvarleg áhrif og verið er að reyna að laga þetta í þeirri nefnd sem ég stýri, að laga það hvernig framfærsluuppbótin skaðaði í raun þá öryrkja sem voru með aldurstengda örorkuuppbót og þá sem voru með réttindi í lífeyrissjóði.

Þar kemur upp dálítill vandi hvernig menn leysa þetta með aldurstengdu örorkuuppbótina, vegna þess að þeir sem hafa hana eingöngu hafa ekki notið hennar vegna þess að framfærsluuppbótin skerti krónu á móti krónu. Þeir sitja uppi með það að fá örlitla framfærsluuppbót, upp á 3 þús. kr. eða eitthvað slíkt, búið er að skerða hana alveg niður í 3 þús. kr. eða jafnvel minna, og þeir njóta ekki aldurstengdu uppbótarinnar. Þeir sem verst eru settir, þ.e. fatlaðir sem aldrei fara á vinnumarkað, hafa farið illa úti úr hruninu og því sem þar gerðist vegna þess að framfærsluuppbótin sem aðrir nutu nýtist þeim ekki vegna þess að hún skerðir aldurstengdu uppbótina.

Þetta sýnir hvað þetta er óskaplega flókið kerfi og það er eitt af markmiðum þeirrar nefndar sem ég stýri að einfalda það þannig að fólk geti skilið það og auðveldara sé að sjá hvað gerist ef menn breyta einum þætti, hvaða áhrif það hefur á aðra þætti. En það er ljóst að þeir sem aldrei fara á vinnumarkað njóta ekki þessarar aldurstengdu örorkuuppbótar, þó að maður kynni að halda að svo ætti að vera, út af framfærsluuppbótinni, og hinir sem hafa lífeyri úr lífeyrissjóði eða tekjur, til dæmis af vernduðum vinnustöðum og öðru slíku, njóta hennar í einhverju en miklu minna en menn kynnu að halda.

Sú tillaga sem hér kemur fram lagar ekki þá stöðu sem er hjá þeim sem verða öryrkjar mjög ungir og hafa aldrei verið á vinnumarkaði. Þeir fá jú ekkert út af framfærsluuppbótinni og fá það ekkert frekar þegar þeir verða aldraðir, þannig að þeir njóta þess í engu nema kerfinu verði breytt. Þeir eiga þá enn langt í land með að verða ellilífeyrisþegar vegna þess að framfærsluuppbótin var tekin upp 2009 og er ekki farin að virka á þennan hóp enn þá.

Ég held að það sé nauðsynlegt að bíða eftir niðurstöðu úr vinnu þeirra sem eru að leysa málin heildstætt, vinnu þeirrar nefndar sem ég stýri. Ég mun leggja til að beðið verið með að afgreiða þetta frumvarp þar til þeirri endurskoðun er lokið.