144. löggjafarþing — 35. fundur,  19. nóv. 2014.

kaup ríkisins á Grímsstöðum á Fjöllum.

55. mál
[18:37]
Horfa

Flm. (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um kaup ríkisins á Grímsstöðum á Fjöllum.

Tillagan er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að leita eftir samningi um kaup á Grímsstöðum á Fjöllum og tryggja þannig að jörðin verði þjóðareign.“

Að flutningi þessarar þingsályktunartillögu stendur auk mín hv. þm. Svandís Svavarsdóttir.

Í greinargerð með þingsályktunartillögunni segir m.a., með leyfi forseta:

„Margt mælir með því að ríkið festi kaup á Grímsstöðum á Fjöllum sem eru í þjóðlendujaðrinum. Ríkið á þegar tvær jarðir suður af Grímsstöðum, Víðidal og Möðrudal, og um fjórðung Grímsstaða á Fjöllum. Tekið er undir það sem fram kemur í framangreindri áskorun að æskilegt er að mótuð verði stefna varðandi eignarhald og umráð yfir óbyggðum og þá sérstaklega bújörðum sem teygja sig inn á hálendið.“

Þessi þingsályktunartillaga var fyrst flutt á 141. löggjafarþingi af Guðfríði Lilju Grétarsdóttur og síðan endurflutt af okkur þingmönnunum Svandísi Svavarsdóttur og mér, sem áður segir, í tvígang á 142. og 143. löggjafarþingi.

Ég vísaði hér í áskorun til Alþingis og ríkisstjórnar, en hún birtist í fjölmiðlum í kjölfar þess að kínverskur auðmaður áformaði að kaupa Grímsstaði á Fjöllum. Við þekkjum þá sögu sem erum í þessum sal og sennilega flestir í þjóðfélaginu. Þá varð til áskorun sem birtist í blöðum, í heilsíðuauglýsingu og er áskorunin svohljóðandi:

„Grímsstaðir á Fjöllum verði þjóðareign.

Stjórnvöldum ber að standa vörð um eignarhald og umráð landsmanna yfir óbyggðum Íslands og þar með bújörðum sem teygja sig inn á hálendið eða hafa sérstöðu í huga þjóðarinnar af landfræðilegum, sögulegum og menningarlegum ástæðum. Þessa skoðun staðfestum við með undirskrift okkar.

Við skorum á Alþingi og ríkisstjórn að marka skýra stefnu í þessa veru og ákveða hvaða jarðir í eigu ríkisins skuli aldrei selja og að ríkið muni kaupa hliðstæðar jarðir til að tryggja að þær haldist í þjóðareign.“

Ég flutti ræðu síðast þegar þetta mál var á dagskrá. Sjálfum finnst mér það hafa verið innihaldsríkasta ræða sem ég hef flutt á Alþingi, en hún fjallaði í rauninni ekki um annað en að lesa upp öll nöfnin sem voru undir þessari áskorun. Ég ætla ekki að gera það núna, nöfnin fylgja tillögunni en ég ætla að lesa fáein þeirra upp hér.

Vigdís Finnbogadóttir, fyrrum forseti Íslands, Ólafur Stefánsson handknattleiksfyrirliði, Björk Guðmundsdóttir tónlistarkona, Helgi Haukur Hauksson, formaður Samtaka ungra bænda, Páll Skúlason, heimspekingur, fyrrverandi háskólarektor, Ómar Þ. Ragnarsson fréttamaður, Matthías Johannessen rithöfundur, Brynhildur Halldórsdóttir æðarræktandi, Syðra-Lóni, Langanesi, Guðrún Nordal, forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar, Styrmir Gunnarsson, fyrrv. ritstjóri, Jón Ólafsson, aðstoðarrektor Háskólans á Bifröst, Halldór G. Jónasson stýrimaður, Vopnafirði, Margrét Kristín Blöndal tónlistarkona, Jón Kalman Stefánsson rithöfundur, Gunnar Kristjánsson prófastur, Reynivöllum í Kjós.“

Þetta eru fyrstu nöfnin á listanum, sem eru um 150 talsins, og ef við byrjum neðan frá þá er mannvalið ekki síðra:

„Páll Óskar Hjálmtýsson tónlistarmaður, Ása Ketilsdóttir, Laugalandi við Ísafjarðardjúp, Ævar Kjartansson útvarpsmaður, Katrín Fjeldsted læknir, Þorsteinn frá Hamri skáld, Svanhildur Halldórsdóttir Kópavogi, Kári Arnórsson, fyrrv. skólastjóri, Áslaug Agnarsdóttir sviðsstjóri, Valgerður Andrésdóttir erfðafræðingur, Sigurður Örn Guðbjörnsson mannfræðingur, Guðni Ágústsson, fyrrv. alþingismaður og ráðherra, Anna Lísa Björnsdóttir, framkvæmdastjóri.“

Svona mætti áfram lesa, ég ætla ekki að lesa öll þessi nöfn upp, en hér er breið spegilmynd af íslensku samfélagi og breið í þeim skilningi að þarna pólitíska litrófið. Þarna eru fyrrverandi ritstjórar gömlu flokksblaðanna. Ég nefndi þarna Styrmi Gunnarsson, Kjartan Ólafsson er þarna líka og Helgi Már Arthúrsson af Alþýðublaðinu, en hann er nú látinn. Baldur Jónasson er þarna, fyrrverandi framkvæmdastjóri og einn af aðalhvatamönnum þessa átaks. Hann er einnig látinn. Þarna eru þingmenn úr öllum flokkum, enginn núverandi þingmaður, ekki var leitað til núverandi þingmanna, að því er mér er sagt, en þarna eru fyrrverandi þingmenn úr öllum flokkum: Forsetar Alþingis; Guðrún Helgadóttir, Halldór Blöndal, Ragnar Arnalds og fleiri fyrrverandi forsetar þingsins. Og þarna er einnig Megas tónlistarmaður. Þetta er mikill konfektkassi sem hægt er að tína upp úr. Hafsteinn Hjartarson verktaki, Lára Hanna Einarsdóttir þýðandi, Svanur Halldórsson leigubílstjóri.

Þarna er sem sagt mikið litróf og ég velti því fyrir mér hvernig stendur á því að ekki er hlustað á þetta fólk. Þarna er talað um að leita eftir samningum um kaup á Grímsstöðum á Fjöllum. Væri nú ekki ráð að ríkisstjórnin gerði út menn að beiðni Alþingis til að kanna þau kjör sem festa mætti kaup á þessari jörð á? Mér finnst að það eigi að hlusta á þetta fólk. Þetta er, eins og ég sagði áðan, spegilmynd af íslensku samfélagi, þarna eru allar starfsstéttir, öll pólitíkin, þarna er ungt fólk og eldra fólk og mér finnst að það eigi að hlusta á þetta fólk.

Fyrsta skrefið er að koma málinu til nefndar og ég óska eftir því að þetta þingmál gangi til allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis og fái þar umfjöllun.