144. löggjafarþing — 35. fundur,  19. nóv. 2014.

almenn hegningarlög.

395. mál
[18:58]
Horfa

Valgerður Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er á margan hátt áhugaverð tillaga hjá hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni. Ég tel í sjálfu sér ekki að fangelsisrefsing sé það sem við getum best gert til þess að koma í veg fyrir eitthvað sem okkur þykir óæskilegt.

Hins vegar ætla ég að segja að orðið „tjáningarfrelsi“ hefur ef til vill allt aðra merkingu í dag en það hafði fyrir 20 eða 30 árum, ég tala nú ekki um fyrir 50 árum síðan. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að skilgreina hvað felst í orðinu tjáningarfrelsi.

Mig langar líka til þess að spyrja hv. þingmann um hvernig við eigum að bregðast við ónafngreindri tjáningu, þá vísa ég í „kommentakerfi“ á netinu, af því að netið er orðið mjög ráðandi í samskiptum og skoðanaskiptum manna. Ég velti fyrir mér: Á hvaða leið erum við með það? Erum við eitthvað betur sett með því að menn þurfi ekki að koma fram undir nafni þegar þeir tjá skoðanir sínar? Er það til dæmis tjáningarfrelsi að koma ekki fram undir nafni?