144. löggjafarþing — 36. fundur,  20. nóv. 2014.

ástandið í heilbrigðismálum.

[10:35]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það hefur ekki farið fram hjá neinum að það er upplausnarástand í heilbrigðismálum þjóðarinnar með læknaverkfalli sem staðið hefur yfir vikum saman og fullkominni óvissu um hvernig Landspítalinn geti brugðist við fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar.

Á forsíðu Fréttablaðsins í dag er frétt um það sem við þingmenn höfum fengið að heyra í svari hæstv. heilbrigðisráðherra, að ef Landspítalinn á að lifa við fjárlagatillögur hæstv. fjármálaráðherra þarf að segja upp 100 starfsmönnum, biðlistar munu lengjast og aðgerðum fækka.

Það er athyglisvert að þetta er annað árið í röð sem hæstv. fjármálaráðherra klúðrar fjárlagagerð hvað varðar Landspítalann. Í fyrra ollu fjárlagatillögur hans því að það varð líka upplausnarástand á Landspítalanum og þáverandi forstjóri spítalans hraktist úr starfi. Það sem gerðist síðan var að Alþingi tók fram fyrir hendur hæstv. fjármálaráðherra og í meðförum þingsins var fjárlagafrumvarpinu breytt.

Ég hlýt að spyrja í ljósi þessarar harmsögu og sögu endurtekinna forklúðrana hæstv. fjármálaráðherra á fjárlagagerð um mikilvægustu heilbrigðisstofnun landsmanna: Gerði hæstv. fjármálaráðherra sér grein fyrir því að fjárlagatillögur hans fyrir Landspítalann kölluðu á uppsagnir 100 starfsmanna? Og í ljósi þess að hæstv. fjármálaráðherra skipti um skoðun í fyrra þegar hann áttaði sig á raunveruleikanum hvað heilbrigðisþjónustuna varðar, mun hann í þetta skipti styðja tillögur okkar í stjórnarandstöðunni um stóraukin framlög til Landspítalans til að vinda ofan af vitleysisganginum sem hann er sjálfur búinn að koma málinu í?