144. löggjafarþing — 36. fundur,  20. nóv. 2014.

ástandið í heilbrigðismálum.

[10:39]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Hæstv. fjármálaráðherra er enn þá í stjórnarandstöðu við síðustu ríkisstjórn og talar enn um verk hennar. Það var hans ákvörðun að leggja fram hér fjárlagafrumvarp í fyrra sem kallaði á þau viðbrögð forstjóra Landspítalans að hann sagði upp. Hann sagði að ástæðan væri tillögur í fjárlagafrumvarpi. Það er hans ákvörðun að leggja fram fjárlagafrumvarp núna sem kallar á uppsögn 100 starfsmanna ef það verður að veruleika.

Ég spyr aftur vegna þess að hæstv. ráðherra svaraði ekki spurningunni sem hann var spurður: Gerði hann sér grein fyrir því áður en hann lagði tillögurnar fram?

Fyrst hæstv. ráðherra ræður ekki við það að leggja fram fjárlagatillögur sem tryggja vinnufrið á Landspítalanum þá frábið ég mér fyrir hönd okkar í stjórnarandstöðunni og fyrir hönd þjóðarinnar allrar endurtekningu á svona uppákomu næsta haust. Það er þá spurning hvort hæstv. fjármálaráðherra getur látið skipa sérstakan seturáðherra til þess að búa til fjárlagafrumvarp ef hann ræður ekki við það sjálfur. Þetta eru hans verk og þau kalla á upplausnarástand á Landspítalanum.