144. löggjafarþing — 36. fundur,  20. nóv. 2014.

ástandið í heilbrigðismálum.

[10:40]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Við skulum halda því til haga hérna í umræðunni að Landspítalinn er með á fimmta tug milljarða á fjárlögum. Umræðan sem á sér stað hér snýst um 1 milljarð. Það eru háar fjárhæðir og skipta máli í rekstri Landspítalans og auðvitað er verið að skoða það í meðförum þingsins.

Vilji menn ekki kannast við það hvernig þeir skildu við heilbrigðiskerfið eftir síðasta kjörtímabil þá verða þeir bara að eiga það við sig. Ég minni á að sama fólkið og er að æsa sig hér yfir stöðunni skar niður um tæpa 30 milljarða á Landspítalanum. Það hefur afleiðingar og við erum enn að glíma við þær. Þetta er líka sama fólkið og setti allt í uppnám með sérstökum samningi við forstjóra spítalans sem gróf undan trausti á bæði ráðherra og yfirmanni spítalans sem leiddi á endanum til þess að það þurfti að gera víðtæka kjarasamninga (Gripið fram í.) um allt í heilbrigðiskerfinu. (Gripið fram í: … grein fyrir því?) Svo er líka sama (Gripið fram í.) fólkið núna að tala fyrir því að það þurfi að stórhækka laun í heilbrigðiskerfinu, ekki síst vegna lækna. Það er sama fólkið og lagði sérstakan viðbótarskatt á lækna (Gripið fram í.) á (Forseti hringir.) síðasta kjörtímabili — sérstakan viðbótartekjuskatt (Gripið fram í: Svaraðu …) upp á rúm 6% (Gripið fram í.) á lækna, (Gripið fram í.) sama fólkið og segir núna að laun þeirra (Forseti hringir.) séu ekki nægilega há.