144. löggjafarþing — 36. fundur,  20. nóv. 2014.

útboð á verkefnum ríkisstarfsmanna.

[10:52]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Það er ekki hægt að neita því að fréttir af þessu tiltekna máli sem hv. þingmaður tekur hér til umfjöllunar vekja áhyggjur. Það er ekki hægt að komast hjá því að manni finnst sem eitthvað hljóti að hafa farið verulega úrskeiðis þegar þeir sem starfa fyrir stéttarfélög fá ekki aðgang til þess að tryggja réttindi félaga sinna.

Það mál sem hér er hins vegar undir á rætur sínar að rekja til tíðar síðustu ríkisstjórnar. Þá fór útboðið fram. Hafi ekki verið tryggt í útboðsskilmálum að þannig væri gengið frá hnútunum að launþegar viðkomandi verktaka nytu sannfærandi kjara verður að taka það til sérstakrar skoðunar. Ég tek heils hugar undir með hv. þingmanni að það er algjört grundvallaratriði.

Í öðrum tilvikum sem hafa verið til umræðu að undanförnu hefur ekkert annað verið undir í málum en það að gæta að hámarksnýtingu skattfjár. Eins og hv. þingmaður segir er það grundvallaratriði þegar einhver missir starf sitt vegna ákvörðunar um að bjóða út verk á vegum ríkisins að gæta að réttindum þeirra starfsmanna sem þar eiga í hlut og að þannig sé búið um málin að verktakar eða aðrir þeir sem bjóða í eigi einfaldlega ekki að geta uppfyllt útboðsskilmála séu þeir að bjóða starfskjör eða réttindi að öðru leyti sem ekki standast þær kröfur sem við gerum í íslensku samfélagi.