144. löggjafarþing — 36. fundur,  20. nóv. 2014.

rekstrarvandi Landspítalans.

[10:56]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Forstjóri Landspítalans hefur sagt að það vanti um 1.800 milljónir til að viðhalda sömu þjónustu og verið hefur á LSH. Spítalinn þarf hins vegar að skera niður á næsta ári miðað við fjárlög 2015 og er nú þegar kominn með uppsafnaðan halla. Það er ljóst að nú þarf að segja upp starfsfólki. Eins er þá ljóst að sama þjónusta verður ekki veitt með færra starfsfólki.

Ég spyr einfaldlega hæstv. ráðherra og ríkisstjórnina sem hefur lagt fram fjárlagafrumvarpið hvaða þjónustu hún leggi til að verði skorin niður. Er það fimm daga ungbarnaeftirlitið sem við ætlum að hætta að veita? Eru það hjartaþræðingar? Ætlum við að loka eins og einni geðdeild? Hvað sér hæstv. ráðherra fyrir sér?

Heilbrigðisstarfsfólk starfar eftir siðareglum sem miða að því að það veiti af heilindum bestu mögulegu heilbrigðisþjónustu. Hæstv. ráðherra hefur áður sagt hér að það hljóti bara að finna út úr því hvað eigi að hætta að gera eða hvernig það forgangsraði. Heilbrigðisstarfsfólk getur ekki á grundvelli siðareglna sinna tekið þannig ákvarðanir — og á ekki að gera það. Það eru ákvarðanir pólitíkurinnar.

Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra: Hvaða þjónustu á Landspítalinn að hætta að veita nú þegar hann vantar tæpa 2 milljarða til að viðhalda sömu þjónustu og verið hefur?