144. löggjafarþing — 36. fundur,  20. nóv. 2014.

rekstrarvandi Landspítalans.

[11:01]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég get ekki annað sagt en að ég er furðu lostin yfir því sem hæstv. ráðherra segir hér, að hann sjái ekki að það sé ljóst að það þurfi að skera niður þjónustu ef ekki verði bætt í því sem til þarf til að reka sömu þjónustu og verið hefur.

Hvað er hæstv. ráðherra að segja? Er einhver fita eftir sem má skera niður á Landspítalanum? Erum við ekki alltaf að tala um það hér, eða er ég orðin rugluð, að það sé ekki hægt að fara nær beini á Landspítalanum en gert hefur verið? Hvað á hæstv. ráðherra við? Hvernig mögulega er hægt að sinna sömu þjónustu ef það vantar tæpa 2 milljarða bara til að viðhalda henni? Þetta gengur (Forseti hringir.) ekki röklega upp fyrir mér.