144. löggjafarþing — 36. fundur,  20. nóv. 2014.

fjáraukalög 2014.

367. mál
[11:35]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar, ræddi tilgang fjáraukalaga, sem er auðvitað að bregðast við því sem er ófyrirséð. Hún ræðir aga í ríkisfjármálum og mikilvægi þess að bæta áætlunargerð. Jafnframt hvetur hún minni hlutann til þess að koma með tillögur um ný verkefni. Nóg um það.

Virðulegur forseti. Ég vil biðja hv. þingmann um að rifja upp með mér umræður um barnabætur sem fram fóru við afgreiðslu fjárlaga 2014 þar sem ætlunin var að skera niður barnabætur um 300 millj. kr. Sú tillaga var hins vegar dregin til baka eftir mótmæli bæði hér í þingsal og annars staðar. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hún hafi gert sér grein fyrir því að með því að breyta ekki viðmiðum í skattalögum mundi 300 millj. kr. samt sem (Forseti hringir.) áður renna í ríkissjóð eins og tillögur og breytingartillögur sýna með þessu fjáraukalagafrumvarpi.